KAUPÞING hefur áhuga á að taka þátt í frekari samruna á norrænum fjármálamarkaði í gegnum JP Nordiska, segir Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings banka, í samtali við Morgunblaðið.

KAUPÞING hefur áhuga á að taka þátt í frekari samruna á norrænum fjármálamarkaði í gegnum JP Nordiska, segir Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings banka, í samtali við Morgunblaðið. Í Dagens Industri í fyrradag er viðtal við Sigurð, þar sem haft er eftir honum að Kaupþing vilji kaupa eignastýringarfyrirtæki og er sænska fyrirtækið Trevise sérstaklega nefnt í því sambandi.

Sigurður segir að Kaupþing hafi skoðað vel möguleika á að kaupa eignarstýringarfyrirtæki ytra. "Sá markaður er svokallaður magnmarkaður og byggist á fjölda viðskiptavina. Reksturinn þarf að ná ákveðinni stærð til að verða hagkvæmur. Við höfum verið að skoða hvort okkar rekstur yrði ekki hagkvæmari með því að bæta slíkri starfsemi við hann," segir hann, "þó er ekki þar með sagt að við höfum ekki áhuga á annars konar fjármálafyrirtækjum og eignum."

Getur tekið skamman tíma

Hann segist ekki geta tjáð sig um hvort eitthvað standi til í þessum efnum á næstunni. "Þessi mál geta komið upp mjög skjótt, en þau geta líka tekið afar langan tíma."

Að sögn Sigurðar er JP Nordiska nú rekið með hagnaði. "Við fækkuðum starfsfólki um 150 manns, eins og komið hefur fram. Í Svíþjóð er mjög dýrt að segja fólki upp og því tekur töluverðan tíma að þessar ráðstafanir skili tilætluðum sparnaði. Sá sparnaður hefur hins vegar verið að koma fram núna í janúar og febrúar," segir hann.

Sigurður segir að ætlunin sé að JP Nordiska fari að bjóða upp á svipaða þjónustu og Kaupþing banki hafi boðið hér heima, þ.e. þjónustu fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki. "Fyrst þurfum við auðvitað að ráða til þess fólk, en við stefnum að því að þessi starfsemi verði komin í gang í lok þessa árs," segir hann.

Í viðtali í Dagens Industri svarar Sigurður þeirri gagnrýni sem komið hefur fram í Svíþjóð, um að Kaupþing líkist frekar áhættufyrirtæki en banka, ekki síst vegna eignarhluta í óskráðum félögum. "Við höfum fylgt öllum EFTA-reglum um mat á óskráðum eignum. Við höfum meira að segja verið frekar íhaldssamir í þeirri viðleitni okkar og gengið lengra ef eitthvað er. Það er nú einu sinni þannig, að við höfum prýðisgóða reynslu af þessari aðferð," segir Sigurður.

Fjármálaheimurinn að breytast

Hann segir að mikilvægast sé, að fjármálaheimurinn sé að breytast á þann veg að fyrirtæki samþykkja í æ minni mæli að greiða mjög háa þóknun, ef bankarnir eru ekki reiðubúnir til að taka áhættuna. "Það höfum við verið að gera hjá okkar viðskiptavinum og það hefur gefist okkur mjög vel."

Þá segir Sigurður að skilgreiningin á banka þurfi ekki endilega að vera stofnun sem veiti veðlán til húsnæðiskaupa, eins og viðtekin skoðun virðist vera í Svíþjóð.