That Old Ace in the Hole, skáldsaga eftir Annie Proulx. Fourt Estate gefur út 2002. 362 síðna kilja í stóru broti. Kostaði 2.495 í Pennanum-Eymundsson.

ANNIE Proulx sló í gegn fyrir nokkrum árum með sögunni af undirmálsmanninum Quoyle sem stendur uppi sem sigurvegari áður en yfir lýkur. Sú bók, sem er margverðlaunuð, hét The Shipping News og gerðist á meðal sjómanna á Nýfundnalandi. Í nýrri bók Proulx, That Old Ace in the Hole, er sögusviðið pönnuskaftið svonefnt, landsvæðið þar sem ríkin Texas og Oklahoma liggja saman. Bob Dollar er sendur þangað af svínaræktarfyrirtæki til að leita að stað fyrir svínabú, en verður að villa á sér heimildir því fátt er betur til þess fallið að spilla lífshamingju manna en að búa í nágrenni við svínabú þar sem lyktin drepur allt kvikt í marga kílómetra fjarlægð frá búinu. Laumuspilið stendur og í Dollar því hann er heiðarlegur piltur og vænn og kann því illa að vera að spilla lífi fólks, ekki síst eftir að hann kynnist íbúum Woolybucket, bæjar sem lítið sem ekkert hefur breyst frá því fyrir fyrri heimsstyrjöld utan að íbúarnir hafa elst.

Annie Proulx kann að segja frá og hefur gaman af að leika sér með tungumálið enda notar hún aldrei eitt orð þar sem hún kemur fyrir tíu og lýsingar hennar á fólki og umhverfi þess geta verið talsvert torf, uppskrúfuð tilgerð sem fer mjög í taugarnar á mörgum gagnrýnendum. Málum er aftur á móti svo háttað að Proulx er yfirleitt að skrifa farsa og fátt á betur við í slíkum bókmenntum er skrúðmælgi og ofhlaðnar setningar. Sagan af Bob Dollar og ævintýrum hans, sem er um leið þroskasaga ungs manns, er og skemmtilegur farsi, fólkið sem lýst er í bókinni allt ýkt og stóreinkennilegt, uppátæki þess undarleg og meira að segja harmleikurinn sem á sér stað undir lokin er broslegur.

That Old Ace in the Hole er saga Bobs Dollars en hún er líka saga þessa sérkennilega landsvæðis, The Panhandle, fólksins sem kom þangað á nítjándu öld og þraukaði þrátt fyrir þrengingar og þurrka. Proulx hefur næmt auga fyrir því sérkennilega í mannlífinu og nýtir það óspart til að gefa sögunni lit og stemmningu og skreytir með sögum af íbúum héraðsins sem margar gegna engum sýnilegum tilgangi fyrir framvindu bókarinnar nema að gera hana skemmtilegri. Sagan af Bob Dollar og frændanum sem ól hann upp er líka skemmtileg út af fyrir sig og í raun ólokið. Kannski fáum við framhald síðar.

Árni Matthíasson

Höf.: Árni Matthíasson