[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SAMÞYKKT var í borgarráði í gær að flýta framkvæmdum á vegum Reykjavíkurborgar á þessu og næsta ári. Þórólfur Árnason borgarstjóri segir að í ár verði 900 milljónum króna varið til viðbótar í ýmis verkefni og 1.200 milljónum króna árið 2004.

SAMÞYKKT var í borgarráði í gær að flýta framkvæmdum á vegum Reykjavíkurborgar á þessu og næsta ári.

Þórólfur Árnason borgarstjóri segir að í ár verði 900 milljónum króna varið til viðbótar í ýmis verkefni og 1.200 milljónum króna árið 2004. Að auki muni Orkuveita Reykjavíkur flýta framkvæmdum að jafnvirði 1.200-1.700 milljónir króna á sama tímabili. Samkvæmt upplýsingum borgarstjóra nema þessar flýtiframkvæmdir því um 3,5 milljörðum króna næstu tvö árin.

Þetta er kynnt jafnhliða því að þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál borgarinnar er samþykkt. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá þegar þessar framkvæmdir voru samþykktar í borgarráði og segja fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar alfarið á ábyrgð R-listans.

Þórólfur segir að með þessum aðgerðum sé verið að bregðast við vaxandi atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu. Sé miðað við að hvert starf kosti um tvær milljónir króna á ári geti þetta þýtt átta til níu hundruð ný heilsársstörf. Þá sé einnig tekið tillit til kaupa á aðföngum. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarfulltrúi segir fjármununum beint í fjölbreytt verkefni og fjárfest sé í stoðum borgarinnar sem veiti konum jafnt sem körlum atvinnu í framtíðinni. Ekki sé eingöngu ráðist í gatnaframkvæmdir heldur líka byggingu skóla, íþróttamannvirkja, hjúkrunarheimilis fyrir aldraða og Nýsköpunarsjóður námsmanna styrktur.

Skuldir greiddar niður

Einnig bendir Þórólfur á að slaki sé í efnahagslífi þjóðarinnar og því hagkvæmt að fara út í framkvæmdir strax þegar nóg framboð sé af fólki til að vinna verkin. Það eykur líkur á að hagstæð tilboð berist heldur en ef farið yrði í þessa vinnu þegar virkjunar- og álversframkvæmdir fyrir austan standa sem hæst. Sé tekið mið af þessu muni verkáætlun Reykjavíkurborgar næstu ár standast þrátt fyrir þenslu. Um leið sé komið til móts við kröfur borgarbúa um að brýnum verkefnum á sviði nærþjónustu sé sinnt.

Þórólfur tekur skýrt fram að ekki sé verið að auka skuldir borgarsjóðs með þessum framkvæmdum ef litið er til næstu þriggja ára. Verið sé að koma ákveðnum verkefnum fyrr í verk og um leið að gefa merki til atvinnulífsins að flýta framkvæmdum hjá sér. Heildarskuldir borgarsjóðs verði hinar sömu í lok árs 2006 og upphaflega var stefnt að. Núverandi framkvæmdir verði fjármagnaðar með lánum en í lok kjörtímabilsins verði lánastaðan hagstæðari um milljarð króna.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins segjast í bókun vera fylgjandi að gripið sé til ráðstafana í því skyni að auka atvinnu í Reykjavík. Munurinn á þessum tillögum og ríkisstjórnarinnar sé þó sá, að ríkissjóður fjármagnar framkvæmdir sínar með eigin tekjuöflun en hjá Reykjavíkurborg sé ekkert eigið fé fyrir hendi heldur einungis um nýjar lántökur að ræða.