TANNLÆKNAFÉLAG Íslands hefur fengið fjölda kvartana að undanförnu um að Tryggingastofnun ríkisins neiti að greiða út reikninga sem gefnir voru út fyrir áramót, en þá tók ný gjaldskrá gildi. Börkur Thoroddsen tannlæknir segir að fjölda aðgerðalykla, þ.e.

TANNLÆKNAFÉLAG Íslands hefur fengið fjölda kvartana að undanförnu um að Tryggingastofnun ríkisins neiti að greiða út reikninga sem gefnir voru út fyrir áramót, en þá tók ný gjaldskrá gildi. Börkur Thoroddsen tannlæknir segir að fjölda aðgerðalykla, þ.e. hvernig aðgerðir eru skráðar í sjúkraskrár og reikninga, hafi verið breytt um áramótin og vandræðin virðist einkum vera að fá þá reikninga greidda. Tryggingastofnun segir aftur á móti að allir reikningar séu greiddir fjögur ár aftur í tímann og alltaf miðað við þá gjaldskrá sem þá var í gildi. Séu reikningar ekki greiddir liggi skýringin í því að þeir hafi verið rangt fylltir út af tannlæknastofunni.

Bolli Valgarðsson, framkvæmdastjóri Tannlæknafélags Íslands, segir að 2-3 tannlæknar hringi á hverjum degi vegna þess að sjúklingar þeirra hafi lent í vandræðum með að fá aðgerðir sem gerðar voru samkvæmt gömlu gjaldskránni greiddar. Hann segir að tannlæknar þurfi að skrá aðgerðir á vissan hátt á reikninga svo sjúklingarnir geti fengið endurgreiðslu frá Tryggingastofnun. Um áramótin hafi þessum lyklum verið breytt og vandræðin hafi komið í ljós þegar fólk óskaði eftir endurgreiðslu aðgerða sem gerðar voru samkvæmt gömlu gjaldskránni.

Reynir Jónsson, tryggingatannlæknir hjá TR, segir að Tryggingastofnun greiði að sjálfsögðu reikninga aftur í tímann. Það sé alltaf gert samkvæmt þeirri gjaldskrá sem var í gildi á þeim tíma sem aðgerðin var gerð. Reikningar fyrnist ekki fyrr en eftir fjögur ár. Þeir reikningar sem TR neiti að greiða séu einfaldlega rangt útfylltir af tannlæknastofunum.

Tölvukerfið hafnar reikningunum

"Það voru gerðar sömu kröfur [um útfyllingu reikninga] fyrir áramót og í dag, en það var ekki jafnstrangt tekið á því og fólk lét þetta fara í gegn. Nú neitar tölvukerfið að taka við reikningum nema þeir séu rétt útfylltir," segir Reynir. Hann segir þetta vera byrjunarörðugleika.

"Við höfum ýmsar leiðir til að leiðrétta reikninginn, ef eldra fólk eða öryrkjar eiga í hlut bjóðum við þeim að senda reikninginn til tannlæknisins til að fá leiðréttingu. Síðan er þetta lagt inn á reikning sjúklingsins," segir Reynir. Þegar reikningarnir séu ekki rétt fylltir út þurfi að fylla þá út aftur. "Það skiptir ekki máli eftir hvaða gjaldskrá reikningurinn er, ef hann er ekki rétt út fylltur er ekki hægt að greiða hann hérna," segir Reynir.

Börkur Thoroddsen tannlæknir segir að aðgerðarlyklarnir sem voru notaðir á síðasta ári hafi verið í gildi frá árinu 1992. "Ef það er sagt að þessir aðgerðarlyklar hafi ekki verið í gildi á síðasta ári er það rangt," segir hann. Tryggingastofnun ætlist til þess að tannlæknarnir leiðrétti reikninga eftir á.

Skjalafals að útbúa nýjan reikning

"Ég get ekki breytt sjúkraskrá ár aftur í tímann. Ég gerði ákveðna aðgerð í fyrra og færði mína sjúkraskrá samkvæmt reglum sem þá voru í gildi. Síðan gefum við út reikninga fyrir öllu saman og ég get ekki farið að breyta þessu árið eftir af því að tölvukerfi Tryggingastofnunar er ekki komið í lag," segir Börkur. "Ég áliti það skjalafals ef ég færi að útbúa nýjan reikning fyrir aðgerð sem ég gerði fyrir ári. Ég tek ekki þátt í svoleiðis, þá verð ég settur inn fyrir skattsvik og ég vil það ekki," segir Börkur.

Lilja Kjerúlf, starfsmaður hjá Berki, segir þetta spurningu um hvað sé sanngjarnt. "Það er þeirra mál að ganga frá þessu. Þetta á ekki að þurfa að snerta okkur neitt, þetta er komið frá okkur á síðasta ári, áður en kerfið breyttist hjá þeim. Ef þeir væru með gamla kerfið væri ekkert vesen," segir Lilja.