Gunnlaugur Haraldsson
Gunnlaugur Haraldsson
1847-2002. I-II. Gunnlaugur Haraldsson. Prestafélag Íslands 2002. 1.028 bls., myndir.

Í INNGANGI þessa nýja guðfræðingatals segir, að það sé hið sjötta í röð rita með æviskrám íslenskra guðfræðinga, sem teljast "eiginleg stéttartöl þeirra". Hið fyrsta, sem út kom á árunum 1907 og 1910, tók Hannes Þorsteinsson þjóðskjalavörður saman, en frá 1947 hafa guðfræðingatöl byggst á og verið viðbætur við rit sr. Björns Magnússonar, Íslenzkir guðfræðingar 1847-1947, sem út kom í tilefni þess að öld var liðin frá stofnun Prestaskólans. Í riti Hannesar voru aðeins taldir þeir guðfræðingar íslenskir, sem brautskráðst höfðu frá Hafnarháskóla um tveggja alda skeið, 1707-1907, en í riti Björns einnig þeir er luku námi við Prestaskólann og guðfræðideild Háskóla Íslands.

Þetta nýja guðfræðingatal er í tveimur bindum. Það hefst á ávarpi ritnefndar þar sem grein er gerð fyrir tildrögum verksins og saga þess rakin. Þar á eftir fylgir rækilegur inngangur höfundar, sem gerir grein fyrir verkinu í heild, efni þess og innihaldi, uppsetningu æviágripa og þeim reglum sem fylgt var við skráningu þeirra. Því næst tekur við Ágrip af sögu Prestafélags Íslands 1918-1988, eftir sr. Heimi Steinsson, og þá Saga Prestafélags Íslands frá 1988 til aldamótanna 2000, eftir Hjalta Hugason prófessor. Að sögu Prestafélagsins sagðri tekur við rækileg saga guðfræðideildar Háskóla Íslands um hálfrar aldar skeið, 1947-1997, eftir sr. Guðna Þór Ólafsson og þá kemur kandídataskrá, þar sem taldir eru allir íslenskir kandídatar í guðfræði, sem brautskráðir hafa verið frá Prestaskólanum, Háskóla Íslands og erlendum háskólum á tímabilinu 1847-2002. Einnig er getið doktora og heiðursdoktora við guðfræðideild Háskóla Íslands og þeirra, sem lokið hafa BA- og MA-prófi í guðfræði við skólann.

Allar eru ritgerðirnar um sögu Prestafélagsins og guðfræðideildarinnar stórfróðlegar og vel samdar og góður fengur að þeim fyrir alla þá, sem vilja kynna sér félagsstarf íslenskra presta og sögu guðfræðimenntunar hér á landi á síðara helmingi 20. aldar.

Hið eiginlega guðfræðingatal hefst á bls. 185 og fyllir það sem eftir er af fyrra bindi og allt síðara bindið. Uppsetning þess er næsta hefðbundin og segir frá fæðingar- og dánardögum, foreldrum, mökum, börnum, menntun og störfum. Margar eru þessar æviskrár hinar fróðlegustu, en þó verður að segjast eins og er, að mér þykir það óþarfa semínarismi að geta einkunna fólks í bæði menntaskóla og háskóla. Þær upplýsingar eru gjörsamlega gagnslausar og skólaeinkunnir segja sjaldan mikið um hæfni fólks í lífinu.

Til nýmæla í þessu guðfræðingatali má telja, að hér eru taldir erlendir guðfræðingar af íslenskum uppruna, og er að því góður fengur. Hinir erlendu guðfræðingar eru flestir Ameríkumenn, eins og vænta mátti, en nokkra athygli hlýtur að vekja, að í þessum kafla er grein um föður Jón Sveinsson (Nonna). Ánægjulegt er að sjá, að íslenskir guðfræðingar skuli loks telja Nonna eiga heima í sínum hópi, en óþarfa hótfyndni er það að setja hann á bekk með útlendingum. Í riti sem þessu á hann vitaskuld heima með Íslendingum og hvergi annars staðar, og vandséð að aðrir, sem getið er á síðum þessa verks, geti talist meiri Íslendingar. Annarra kaþólskra presta íslenskra er ekki getið. Það er í sjálfu sér miður, en til þess liggja ástæður, sem grein er gerð fyrir í ávarpi ritstjórnar.

Allur frágangur þessa verks er einkar vandaður. Það er prentað á fallegan pappír, í góðu bandi og myndir allar ágætlega skýrar.

Jón Þ. Þór

Höf.: Jón Þ. Þór