Sjostakovitsj: Píanókvintett í g Op. 57. Franck: Píanókvintett í f. Tríó Reykjavíkur (Guðný Guðmundsdóttir fiðla, Gunnar Kvaran selló og Peter Máté píanó) ásamt Sun Na fiðla og Unni Sveinbjarnardóttur víóla. Sunnudaginn 23. febrúar kl. 20.

EITT magnaðasta kammerverk 20. aldar var efst á blaði á að vanda vel sóttum tónleikum Kammermúsíkklúbbsins s.l. sunnudag. Kvintett Sjostakovitsjar fyrir píanó og strengjakvartett frá örlagaárinu 1940 stendur nú þegar upp úr öðrum verkum aldarinnar fyrir sömu áhöfn og stenzt vel samanburð við hátinda rómantíska og vínarklassíska skeiðsins. Annað til marks um langt framhaldslíf er hvað kvintettinn virðist opinn fyrir ólíkri túlkun, enda lagskiptur eins og mikil listaverk eru jafnan þar sem togast á ólíkar tilfinningar og sjónarmið, stundum allt í senn.

Upphafið lofaði að vísu ekki of góðu í meðferð umræddra hljómlistarmanna, því frekar loppin Prelúdían hlaut fáeina marbletti af völdum hálfklesstra bogastroka, og inntónunin var ekki alltaf lýtalaus. En lágstemmt upphaf Fúgunnar (II.) var aftur á móti sérlega áhrifamikið í krafti upphafinnar íhugunar, á ofurveiku senza vibrato þar sem ekkert mátti út af bera, áður en innri örvinglun tónskáldsins brauzt fram af fullum þunga í stórbrotinni andstæðu. Innlifun flytjenda í Scherzóinu (III.) var sömuleiðis sterk, og var kannski til marks um fyrrgetna lagskiptingu í þessum makalausa þætti að tónleikaskrárritara finnst ríkja "fölskvalaus" léttleiki þar sem við öðrum blasir glottandi hauskúpa. A.m.k. í aðra rönd. Eins var mikil örlagastemmning yfir markvisst röltandi Intermezzoinu. Að meðtöldum frekar hægt túlkuðum lokaþætti, sem lagði fyrir vikið megináherzlu á alvöru málsins, má segja að flutningur hópsins hafi uppfyllt flestar væntingar. Tókst oft að vega hárfínt salt á milli andstæðra tjábrigða eins og vera bar.

Kvintett Césars Francks í f-moll frá 1879 eftir hlé kvað enn njóta mikillar virðingar tónkera. Það er óhemjulangt verk (3 kortér) en að viti undirritaðs ekki að sama skapi innblásið. Allra sízt í samanburði við meistaraverk Sjostakovitsjar. Því furðulegra er að uppgötva, að nær sextugur Klóthildarkantorinn kvað hafa samið verkið undir ástaráhrifum í garð kvensniptar nokkurrar að nafni Augusta Holmés. Gjörið svo vel - cherzez la femme!

Það má svo sem vel vera að finna megi ástþrungna ástríðu í ofhlöðnum hendingum 1. þáttar, og vissulega skortir ekki stefjamagnið til úrvinnslu. Hitt finnst manni aftur á móti vanta áberandi, nefnilega frumleika, fjölbreytni, andstæður og kammermúsíkalskt gegnsæi. Ekki batnaði það í miðþættinum sem, með fullri virðingu fyrir belgíska meistaranum, sló mann sem ofþroskaður ávöxtur - og langdreginn með ólíkindum. Manni var að auki hulið hvernig orgelsnillingur gat sýnt jafnlítinn áhuga í verki á bæði pólýfóníu og rytma. Eða hvernig höfundur D-dúr sinfóníunnar gat samið jafnmörg "griplaus" stef og við manni blöstu. Átti það ekki síður við í lokaþættinum, Allegro non troppo ma con fuoco, sem þrátt fyrir alla tilfinningasemi höfundar, hvað þá auðsæja orku og innlifun spilenda, leið þessum hlustanda úr minni um leið og síðasta hendingin dó drottni sínum.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson