ÞAÐ eru aldeilis loforðin eina ferðina enn, lækka skatta, milljarðar í atvinnubótavinnu (eins og var fyrir nokkrum áratugum með atvinnubótavinnuna) og ekkert minnst á heilbrigði þjóðarinnar.

ÞAÐ eru aldeilis loforðin eina ferðina enn, lækka skatta, milljarðar í atvinnubótavinnu (eins og var fyrir nokkrum áratugum með atvinnubótavinnuna) og ekkert minnst á heilbrigði þjóðarinnar. Og enn þann dag í dag hefur lítið verið að marka blessaða ráðamennina með loforðin, ekki eru nú barnakortin sem Framsókn lofaði sem mest fyrir síðustu kosningar (hlakkaði í gamla karlinum mér að fara að geta börn og gat börn en ekkert barnakort), þannig að ég barasta sagði unga fólkinu sem er að vinna með mér að endilega ekki byrja á því að eignast börn fyrr en Framsókn væri búin að efna loforðið með barnakortin. Sagði við unga fólkið að hlusta endilega eftir viðbrögðum, og ekki síst athuga hvort að það borgi sig að eiga barn, það er ekki allt gefið hvort sem er fyrir börnin og eða alla hina sem eru orðnir yfir 18 ára! Hvað með mömmu gömlu (ljótt að segja gömlu), hún verður áttræð í júlí, hún hefur varla efni á því að fara til læknis, vegna þess að hennar lífeyrir og bætur duga varla til að framfleyta henni. Hvað með allt það fólk sem er búið að safna í alla þessa sjóði í öll þessi ár? Þá er peningurinn ekki svo mikill eftir að búið er að taka skattinn af. Tvíborgaður og jafnvel þríborgaður skattur, er þetta réttlátt!? Þetta er það sem fólk má búast við miðað við skattalögin í dag. Ég sé ekki fram á það að hafa efni á að fara til læknis aftur (er búinn að fara einu sinni) því ekki er það ódýrt. Það er af sem áður var er gamli Alþýðuflokkurinn kom ásamt öðrum flokkum á Sjúkrasamlaginu, og reif það svo niður með þessum nýju Ameríkusjúkralögum, þannig að fólk þarf að borga. Við Íslendingar vorum stoltir á þeim tíma, og einhverjir tóku upp okkar kerfi og gagnast það vel ennþá annó 2003 úti í heimi! En í Bandaríkjunum eru til sjúkrahús sem taka við fólki sem ekki hefur sjúkratryggingu! Hérna er þetta orðið það sama, fólk hefur einfaldlega ekki efni á að leita sér læknisþjónustu, og eftir að fákeppnin kom á lyfjamarkaðinn þá virðast einhverjir ráða ofsaháu lyfjaverði, ekki eru tollarnir og aðflutningsgjöldin svo mikil. Eru þetta kannski gjöldin frá ríkinu, og eru þetta einhver samráð með (Heilsustofnun) ráðuneytinu og tryggingunum, að fólk þurfi að tryggja sig fyrir öllum andsk... veikindum og þaðan af verra - ég bara spyr. Fólk ætti nú að fara að íhuga þessi mál, og sjá hvernig hefur verið farið með okkur Íslendinga. (Einn franskur vinur minn spurði hvað eruð þið að hugsa, þið eru öll rugluð, enginn þorir neinu, sjáðu hvað við gerðum úti í Evrópu!) Sagði sannleikann um okkur molbúana; við gætum því miður ekki staðið saman, það kjaftar hver tuska í sínu horni, og þegar þarf að greiða atkvæði þá er það bara út af skyldurækni við gamla Flokkinn. Og var honum brugðið við að Islandeeerne (mín túlkun á okkar landsnafni) hefðu ekki einu sinni rænu til að mótmæla einu né neinu sem viðkemur samfélaginu, frá A til Ö. Þá er stjórnsýslan ekki undanskilin. Menn hafa, eins og hann sagði, verið reknir fyrir minna en Jonsen gerði. En Íslendingar - og þá segi ég þetta til tilvonandi foreldra og þeirra sem á eftir koma - ekki taka neitt sem gefið, þessi ríkisstjórn er búin að svíkja mörg gömlu kosningaloforðin, þannig að það er tími til kominn að Fólkið rísi upp og segi nei við Óstjórn og Kosningaloforðum. Látið verkin tala, sagði einhver fyrir mörgum árum, en þá er að athuga hvort verkin hafi verið unnin, ekki mikið nema á fárra manna hendur. Samanber þjóðareign okkar Íslendinga, kvótinn. Hverjir fengu hann og hverjir högnuðust á kílóum og tonnum, og hverjir keyptu? Ekki ég, lítilmagninn og ekki heldur hinir sem vinna myrkranna á milli til að láta enda ná saman. Er þetta boðskapurinn ykkar, ráðamenn, að plata fólkið (þá ginnkeyptu) með sömu rullunni? Ég bara spyr.

ÖRN INGÓLFSSON,

Granaskjóli 34, 101 Reykjavík.

Frá Erni Ingólfssyni:

Höf.: Erni Ingólfssyni