Tölvan er greinilega mjög spennandi viðfangsefni ef marka má viðbrögð Stefaníu Katrínar, Söndru Kristínar og Gísla Snæs, sem öll leika sér daglega í tölvum á leikskólanum Arnarsmára.
Tölvan er greinilega mjög spennandi viðfangsefni ef marka má viðbrögð Stefaníu Katrínar, Söndru Kristínar og Gísla Snæs, sem öll leika sér daglega í tölvum á leikskólanum Arnarsmára.
TÖLVUR verða innan skamms hluti af daglegu starfi krakkanna á leikskólum Kópavogs gangi ný áætlun um tölvuvæðingu skólanna eftir.

TÖLVUR verða innan skamms hluti af daglegu starfi krakkanna á leikskólum Kópavogs gangi ný áætlun um tölvuvæðingu skólanna eftir. Faglegur hluti áætlunarinnar var nýlega samþykktur í leikskólanefnd bæjarins en unnið er að því að útbúa fjárhagsáætlun fyrir verkið.

Að sögn Sesselju Hauksdóttur leikskólafulltrúa er með áætluninni verið að móta stefnu um hvernig vinna eigi með tölvur og börn og hvaða hugmyndafræði eigi að liggja þar að baki.

"Stefnan er að líta á tölvuna sem eitt af leikefnunum í leikskólanum og börnin hafi frjálsan aðgang að tölvum líkt og með annað efni á borð við skæri, lit og leir," segir hún. "Það gilda í raun nákvæmlega sömu lögmál um þetta. Síðan er valið hvaða forrit þau fá að leika sér með þannig að þau fá að sjálfsögðu ekki ofbeldisforrit og annað slíkt. Auk þess er lögð áhersla á samvinnu fleiri barna við tölvuna þannig að þau séu ekki ein við hana."

Sendi foreldrum sínum myndir í tölvupósti

Sesselja segir gert ráð fyrir að allir leikskólarnir verði komnir með einhvers konar tölvuvinnslu fyrir börnin innan eins til tveggja ára en stefnt sé að því að markmiðum áætlunarinnar verði fullkomlega náð á næstu fjórum árum.

Aðspurð segir hún tölvukost og tæki oft hafa hamlað slíku starfi innan leikskólanna enda sé dýrt að tölvuvæða skólana. "Við ætlumst líka til þess að tölvurnar geti ráðið við að börnin fari inn á Netið til að afla sér upplýsinga og þau geti sent tölvupóst og myndir. Hugmyndin er að þau geti sent foreldrum sínum myndir, t.d. af þeim verkefnum sem þau hafa verið að gera. Þannig að það þarf dálítið öflug tæki fyrir þau en það þarf ekkert endilega mjög mikið af þeim."

Þá segir hún stefnuna að stafrænar upptökuvélar, skjávarpar og annað verði í hverjum leikskóla en eftir eigi að þróa með hvaða hætti þessi tæki verði nýtt í starfi með börnunum.

Börn og starfsfólk uppgötvi í sameiningu

Sesselja segir að samfara þessari áætlunargerð hafi leikskólinn Arnarsmári farið af stað með þróunarverkefni um tölvunotkun barna og viðbrögð barnanna hafi ekki látið á sér standa. "Þær í Arnarsmára eru reyndar ekki búnar að vinna lengi við tölvur með börnunum en þetta er mjög vinsælt hjá þeim - þó ekki þannig að þau hætti að kubba eða fara í hlutverkaleik eða annan leik. Þetta er orðið hluti af eðlilegu umhverfi mannsins alls staðar og þarna líka en það þarf að passa svolítið upp á að menn fari ekki að líta á þetta sem eitthvað mikilvægara en eitthvað annað, þetta er bara eitt af tilboðunum."

Jafnframt því að fjalla um tölvunotkun barnanna tekur áætlunin einnig til með hvaða hætti starfsfólk leikskólanna getur nýtt sér tölvurnar og segir Sesselja að undanfarið hafi eitthvað verið um að starfsmenn sæki námskeið í tölvunotkun. "En svo er galdurinn líka að það er í lagi að starfsmennirnir uppgötvi notkunarmöguleikana með börnunum. Við erum ekki beinlínis að kenna þeim heldur erum við að hjálpa þeim að uppgötva. Stundum er fullorðna fólkið samferða þeim í því og það er það alskemmtilegasta."