MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Landssambandi lögreglumanna: "Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á flokksfundi Samfylkingarinnar í Borgarnesi hinn 9.

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Landssambandi lögreglumanna:

"Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á flokksfundi Samfylkingarinnar í Borgarnesi hinn 9. febrúar 2003 og tilsvör hennar í fjölmiðlum í framhaldi af því, hafa vakið undrun og óánægju hjá mörgum, meðal annars innan raða lögreglumanna. Mátti skilja orð hennar svo, að aðrar en faglegar ástæður geti legið að baki opinberra rannsókna sem tengjast tilteknum fyrirtækjum á Íslandi, en í ræðu sinni viðhafði hún eftirfarandi orð:

"... Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki - þarna er efinn og hann verður ekki upprættur nema hinum pólitísku afskiptum linni og hinar almennu gegnsæju leikreglur lýðræðisins taki við."

Stjórn Landssambands lögreglumanna telur það ábyrgðarhlut hjá manneskju í þessari stöðu að tjá sig um þessi mál með þeim hætti sem hún gerði. Leggja má þann skilning á ummæli hennar að hún hafi með þeim í raun verið að vega að starfsheiðri lögreglunnar og eftir atvikum ákveðnum eftirlitsstofnunum ríkisins.

Ingibjörg Sólrún vék einnig að trausti almennings í garð ýmissa opinberra stofnana í ræðu sinni. Þar fullyrðir hún að:

"Það hefur dregið verulega úr trausti á öllum helstu stofnunum samfélagsins - ríkisstjórn, ráðherrum, alþingi, stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum, lögreglu, kirkju, fjölmiðlum og menntastofnunum."

Hvað traust almennings til lögreglu varðar þá gengur sú fullyrðing Ingibjargar Sólrúnar þvert á niðurstöður allra viðhorfskannana sem gerðar hafa verið síðustu ár, en þær sýna að yfir 70% landsmanna bera traust til lögreglunnar. Engin önnur opinber stofnun hefur áunnið sér svo mikils trausts almennings, að undanskildum Háskóla Íslands.

Ingibjörg Sólrún er mikils metinn stjórnmálamaður í íslensku samfélagi sem nær athygli almennings. Stjórn Landssambands lögreglumanna þótti því með öllu óskiljanlegt hvað henni gekk til með málflutningi sínum, sem var til þess fallinn að grafa undan trausti almennings á stofnunum samfélagsins, þ.m.t. lögreglunni.

Af þessu tilefni sendi stjórn Landssambands lögreglumanna bréf til Ingibjargar og óskaði skýringa á ummælum hennar. Í framhaldi af því átti stjórn Landssambands lögreglumanna fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að hennar beiðni. Þar skýrði hún mál sitt betur og tók af allan vafa um það að hún hafi ekki með orðum sínum ætlað að vega að lögreglunni á nokkurn hátt og hafi orð hennar verið túlkuð á þann veg þótti henni það miður. Að fengnum hennar skýringum er málinu lokið af hálfu Landssambands lögreglumanna.

Stjórn Landssambands lögreglumanna frábiður sér að störf lögreglunnar séu dregin inn í pólitískar umræður með þessum hætti."