Leikmenn Manchester United fagna einu þriggja marka sinna á Delle Alpi í gærkvöld. Nicky Butt, David Beckham, Roy Keane, markaskorarinn Ryan Giggs og John O'Shea.
Leikmenn Manchester United fagna einu þriggja marka sinna á Delle Alpi í gærkvöld. Nicky Butt, David Beckham, Roy Keane, markaskorarinn Ryan Giggs og John O'Shea.
MANCHESTER United og AC Milan héldu áfram sigurgöngu sinni í meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Bæði liðin unnu góða útisigra og eru þegar komin í átta liða úrslit keppninnar eftir fjóra sigra í jafnmörgum leikjum í riðlakeppninni.

MANCHESTER United og AC Milan héldu áfram sigurgöngu sinni í meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Bæði liðin unnu góða útisigra og eru þegar komin í átta liða úrslit keppninnar eftir fjóra sigra í jafnmörgum leikjum í riðlakeppninni. Manchester United gerði sér lítið fyrir og lagði Juventus að velli á sannfærandi hátt, 3:0, á hinu erfiða vígi Ítalanna, Delle Alpi, og AC Milan sótti sigur til Moskvu, 1:0, gegn Lokomotiv. Real Madrid náði naumlega jöfnu, 1:1, gegn Dortmund í Þýskalandi og Deportivo La Coruna lagði Basel að velli, 1:0, á Norður-Spáni.

Manchester United lék virkilega vel í Tórínó og nýtti sér mistök heimamanna til hins ítrasta. Ryan Giggs kom inn á sem varamaður fyrir Diego Forlan eftir aðeins 8 mínútna leik en Forland fór þá meiddur af velli. Giggs hafði aðeins verið inn á í 7 mínútur þegar hann skoraði eftir sendingu frá Juan Sebastian Veron, og bætti við öðru marki fyrir hlé eftir 40 metra sprett með boltann. Ruud van Nistelrooy, sem einnig sat á varamannabekknum til að byrja með, mætti til leiks fljótlega í síðari hálfleik og var ekki lengi að bæta við þriðja markinu, sem var sérlega ódýrt. Bæði lið áttu skot í stangir og þverslá og mörkin í leiknum gátu hæglega orðið mun fleiri.

Alex Ferguson var hæstánægður með sína menn og allt var með kyrrum kjörum í búningsklefa enska liðsins eftir leikinn. Hann hældi Giggs á hvert reipi. "Hann var stórkostlegur. Við ætluðum ekki að nota hann, en urðum að grípa til hans strax og hann launaði fyrir sig með snilldarleik. Hann tognaði þó lítillega og það er því ekki ljóst hvort hann spilar úrslitaleik deildabikarsins á laugardaginn. En þetta var frábær frammistaða hjá liðinu í heild og hin mikla reynsla sem í því býr kom berlega í ljós í kvöld," sagði Ferguson.

Deportivo La Coruna, Juventus og Basel munu bítast um annað sætið í D-riðlinum í tveimur síðustu umferðunum. Deportivo vann sinn fyrsta leik í riðlinum, 1:0 gegn Basel, og skoraði Diego Tristan markið eftir aðeins fimm mínútna leik.

Portillo bjargaði Real á síðustu stundu

Allt stefndi í tap hjá hinu stjörnum prýdda liði Real Madrid því Jan Koller, Tékkinn hávaxni, skoraði fyrir Dortmund um miðjan fyrri hálfleik. Staðan var 1:0 fram á síðustu mínútuna en eftir þunga sókn á lokakafla leiksins náði varamaðurinn Javier Portillo að jafna metin, 1:1. Stigið getur reynst Real Madrid afar dýrmætt en Dortmund hefði með sigri náð undirtökunum í baráttu liðanna um annað sætið í C-riðlinum.

"Það er virkilega sárt að fá á sig jöfnunarmark eftir að venjulegum leiktíma er lokið. Við gerðum allt rétt í þessum leik en uppskárum ekki eftir því," sagði Stefan Reuter, fyrirliði Dortmund.

Rivaldo skoraði sigurmark AC Milan gegn Lokomotiv, 1:0, úr vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum. Brotið var á Filippo Inzaghi í vítateig Ítalanna, sem höfðu farið illa með góð marktækifæri snemma í leiknum.