GETZ, nýi smábíllinn frá Hyundai, er að mati breska bílablaðsins What Car? bestu kaup ársins 2003. Þar sem Ford Ka hefur átt þennan titil undanfarin 6 ár þykir árangur Getz sæta talsverðum tíðindum.

GETZ, nýi smábíllinn frá Hyundai, er að mati breska bílablaðsins What Car? bestu kaup ársins 2003. Þar sem Ford Ka hefur átt þennan titil undanfarin 6 ár þykir árangur Getz sæta talsverðum tíðindum.

Fjórir bílar í úrslitin

Alls kepptu fjórir bílar til úrslita um titilinn, sem þykir verulega eftirsóknarverður á evrópska bílamarkaðnum, en þeir voru auk Getz Ford Ka, Seat Arosa og Kia Rio. Titillinn er veittur með tilliti til búnaðar, hönnunar, rýmis og verðs og þótti Getz gera betur en Ford Ka bæði hvað búnað og verð snertir. Í niðurstöðum dómnefndar er Getz m.a. hrósað fyrir snarpa og aflmikla vél, góða útlitshönnun og frábæra rýmisnýtingu auk þess sem hann er sagður afar skemmtilegur í akstri.

Vel útbúinn

Með Getz, sem er í sama stærðarflokki og VW Polo og Opel Astra, hefur Hyundai hafið sókn sína í flokki smábíla, en sá flokkur hefur vaxið hvað örast á bílamarkaðnum á undanförnum árum. "Þar sem Hyundai hefur ekki átt bíl áður í þessum flokki, er velgengni Getz sérlega ánægjuleg, en hann hefur hvarvetna fengið hæstu einkunn," segir Steinar Örn Ingimundarson, sölustjóri hjá B&L.

"Sem dæmi um staðalbúnað má nefna ABS, fjóra loftpúða, fjarstýrðar samlæsingar og rafmagn í framrúðum. Þá er verðið mjög hagstætt eða frá 1.150 þús.kr.," segir Steinar og bætir því við að hann sé líkt og aðrir bílar frá Hyundai með þriggja ára ábyrgð frá framleiðanda.