MEÐALHITASTIG það sem af er febrúarmánuði á Akureyri er 1,8 stig á celsíus sem er hæsti meðalhiti sem mælst hefur síðan árið 1965 en þá mældist meðalhiti 3,2 gráður í febrúar. Meðalhiti í Reykjavík það sem af er febrúar er 1,7 gráða á celsíus, en meðalhiti hefur ekki verið jafnhár síðan árið 1994 í höfuðborginni.
Trausti Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði mikinn kulda fyrstu daga mánaðarins draga meðaltalið töluvert niður. Hæsti meðalhiti sem mælst hefur bæði í Reykjavík og á Akureyri síðan mælingar hófust var árið 1932 er meðalhiti mánaðarins mældist 5 stig á báðum stöðum.