"Ótrúlegur tvískinnungur í þessari umræðu."

EINAR Stefánsson augnlæknir skrifar grein í Mbl., þann 21. febrúar sl., þar sem hann kallar eftir meira viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur og skilur ekki að íslensk stjórnvöld skuli styðja ,,einangrunarstefnu" í landbúnaði og halda þannig uppi verði á matvörum.

Það hefur oft vakið furðu mína hvað margir setja kíkinn fyrir blinda augað þegar beðið er um meira frelsi í öllum viðskiptum og alltaf á það að koma blessuðum ,,neytandanum" til góða. Í þessu sama Morgunblaði er önnur grein eftir augnlækni sem varar við því að sjóntækjafræðingar fái að mæla sjón þeirra sem þurfa að fá sér gleraugu. Þarna kemur berlega í ljós að augnlæknar vilja ekki fyrir nokkurn mun þurfa að láta það yfir sig ganga að keppa við innlenda stétt manna, hvað þá ef þeir þyrftu að keppa við erlenda kollega sína.

Hvernig væri t.d. að stjórnvöld myndu hlutast til um að flytja inn augnlækna og tannlækna frá láglaunalöndunum? Það ætti að vera auðvelt að gefa þeim starfsleyfi hér og lækka þannig stórlega útgjöld heimilanna og heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Ef að menn hrópa á viðskiptafrelsi á eitt yfir allar stéttir að ganga.

Það eiga ekki bara að vera framleiðslugreinarnar og ferðaþjónustan sem keppa í óvarinni samkeppni við allar þjóðir jarðarinnar.

Það er ótrúlegur tvískinnungur í þessari umræðu og venjulega koma skoðanir eins og hér um ræðir úr röðum starfsstétta, sem telja sig örugga um að halda sinni lögboðnu vernd fyrir samkeppni umheimsins.

Eftir Þóri N. Kjartansson

Höfundur er framkvæmdastjóri, Vík í Mýrdal.

Höf.: Þóri N. Kjartansson