PHARMACO hf. stefnir að því að koma á fót skrifstofu í Svíþjóð á þessu ári. Róbert Wessman, forstjóri Pharmaco, segir að þetta tengist því að sænska lyfjaeftirlitið hefur nýlega samþykkt markaðsleyfisumsóknir fyrir samheitalyf frá fjórum markaðsaðilum af þunglyndislyfi danska lyfjarisans Lundbeck, Cipramil. Þar á meðal er lyfið Citalopram, sem dótturfyrirtæki Pharmaco, Omega Farma, þróaði á sínum tíma.
Að sögn Róberts er veltan með Cipramil í Svíþjóð um fimm milljarðar íslenskra króna á ári. Hann segir að ef vel takist til megi gera ráð fyrir að Pharmaco geti jafnvel náð nokkur hundruð milljóna króna veltu með samheitalyfið Citalopram.
Lundbeck hefur gert tilraunir til að halda samheitalyfjafyrirtækjum eins og Pharmaco frá markaði.