JÚLÍUS Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir að fyrirtækið geri sér vonir um að geta staðið við sinn hluta af samkomulagi um raforkuöflun vegna stækkunar Norðuráls og jafnvel lagt til aukaorku. "Mér skilst að með úrskurði varðandi Norðlingaöldu hafi tapast um 100 gígavattsstundir frá því sem áætlað var. Við gerum okkur vonir um að geta útvegað það sem upp á vantar. Ég held að á þessum tíma séum við þeir einu sem gætum útvegað það."
Samkvæmt samkomulagi milli Landsvirkjunar, Hitaveitunnar og Orkuveitu Reykjavíkur átti Landsvirkjun að útvega 70 MW en Orkuveitan og Hitaveitan 40 MW hvor fyrir sig.
Júlíus segir að aðilar samkomulagsins muni funda á morgun þar sem farið verður ofan í saumana á málinu.
"Þetta snýst um að allir þrír fari af stað, ég held að það sé ekki hægt að útvega þetta [orkuna] innan þessa tíma nema allir leggist á eitt," sagði Júlíus. "Þetta er eins og við ætluðum alltaf að gera, að vera tilbúnir fyrir 2005. Við erum þegar byrjaðir, erum búnir að bora þrjár holur og höfum verið í vinnslurannsóknum sem nauðsynlegar eru úti á Reykjanesi, mjöðurinn er erfiður þar."