VALGERÐUR Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segir yfirlýsingu Landsvirkjunar vera mjög jákvæðar fréttir. Hún staðfesti að úrskurður setts umhverfisráðherra um Norðlingaölduveitu hafi verið réttur. Valgerður hyggst á ríkisstjórnarfundi næsta föstudag kynna tvö frumvörp sem stefnt er að fáist afgreidd fyrir þinglok í næsta mánuði.
Valgerður segir að samkvæmt úrskurðinum náist að tryggja tvennt, annars vegar næga orku til að hægt verði að ráðast í stækkun Norðuráls og hins vegar sé verndun Þjórsárvera tryggð.
Að sögn Valgerðar liggur fyrir nýlegt samkomulag við sveitarfélögin á Vesturlandi og hafnarsjóð vegna stækkunar Norðuráls. Hún telur allar líkur á að framkvæmdir við stækkunina geti hafist strax í haust, það sé mjög mikilvægt vegna annarra stóriðjuverkefna.
Valgerður vonast til þess að frumvörpin nái fram að ganga áður en þingstörfum ljúki í marsmánuði. Það eigi að takast þar sem þingmenn séu vel inni í málinu. Frumvörpin eru annars vegar vegna breytinga á lögum um raforkuver, þ.m.t. Norðlingaölduveitu og gufuaflsvirkjanir Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, og hins vegar vegna stækkunar Norðuráls í tveimur áföngum, upp í 240 þúsund tonn. Að sögn Valgerðar er síðarnefnda frumvarpið svipaðs eðlis og vegna Alcoa í Reyðarfirði.
Norðurál hefur óskað eftir samskonar fjárfestingarsamningi og Alcoa og þar með sömu tekjuskattsprósentu, eða 18% í stað 33%. Aðspurð segist Valgerður ekki geta upplýst um innihald frumvarpsins.
"Við skiljum þær óskir Norðuráls að samningurinn verði í samræmi við það sem samið var um við Alcoa," segir Valgerður.