SPRENGJUR, sem líklega voru heimatilbúnar, sprungu við tvo háskóla í Peking í gær. Slösuðust níu manns í sprengingunum en enginn þó alvarlega.

SPRENGJUR, sem líklega voru heimatilbúnar, sprungu við tvo háskóla í Peking í gær. Slösuðust níu manns í sprengingunum en enginn þó alvarlega.

"Sprengjurnar sprungu á líkum tíma í mötuneytum skólanna, Tshinghua-háskólans og Peking-háskóla," sagði Lin Wei, talsmaður öryggismála í Peking. "Fyrstu athuganir benda til, að þær hafi verið heimatilbúnar og notast við svart byssupúður."

Í mötuneyti Tshinghua-háskóla slösuðust sex manns, þar af fjórir kennarar, en þrír í mötuneyti Peking-háskóla. Urðu nokkrar skemmdir í mötuneytunum, meðal annars brotnuðu rúður. Skammt er á milli skólanna, sem eru báðir í Haidian-háskólahverfinu í Peking.

Ekki er enn vitað hver eða hverjir komu sprengjunum fyrir eða hver tilgangurinn var. Í fyrradag kom Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í heimsókn og kínverska þjóðþingið kemur saman eftir viku. Það er þó ekkert, sem tengir tilræðin við þessa atburði.

Sprengjutilræði eru alltíð í Kína og oft tengjast þau persónulegum deilum manna í milli. Byssueign er almennt bönnuð en auðvelt er að komast yfir sprengiefni, sem notað er við námagröft eða byggingaframkvæmdir.

Peking. AFP.

Höf.: Peking. AFP