HAFRANNSÓKNASTOFNUN hefur lagt til við sjávarútvegsráðherra að veiðibann vegna friðunar hrygningarþorsks verði lengt um helming á einstökum svæðum, eða úr 20 dögum í 40 daga.

HAFRANNSÓKNASTOFNUN hefur lagt til við sjávarútvegsráðherra að veiðibann vegna friðunar hrygningarþorsks verði lengt um helming á einstökum svæðum, eða úr 20 dögum í 40 daga.

Samkvæmt tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar verður veiðibann á innra vestursvæði, vestan Dyrhólaeyjar að Ísafjarðardjúpi, á tímabilinu frá 20. mars til 30. apríl en á innra austursvæði, austan Dyrhólaeyjar að Hornafirði, frá 1. apríl til 10. maí. Á svæðinu frá Hornafirði norður fyrir land að Ísafjarðadjúpi leggur stofnunin til veiðibann frá 15. apríl til 15. maí. Jafnframt hefur stofnunin lagt til að hámarksmöskvastærð í netum verði lækkuð í áföngum framtíðinni.

Björn Ævarr Steinarsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnuninni, segir markmiðið með þessum tillögum að gefa þorski frið til að hrygna, sérstaklega stórum fiski. Eins sé tími veiðibanns lengdur til að draga úr veiðiálagi á hrygningarstofninn, sem sé í sögulegu lágmarki nú miðað við undanfarin 20 ár og nýliðun lengst af undir meðallagi.

Hafrannsóknastofnunin hefur síðustu daga kynnt tillögur sínar útgerðarmönnum og hagsmunasamtökum í sjávarútvegi. Jóhann Sigurjónsson, forstjóri stofnunarinnar, segir athuganir hafa leitt í ljós að sókn í stórþorsk hafi verið mun meiri á síðasta ári en gert var ráð fyrir. Nauðsynlegt sé að bregðast við því nú þegar með lengri lokun svæða en gilti á vertíðinni 2002, þó ljóst sé að fyrirvarinn sé skammur, einkum með tilliti til breytinga á leyfilegri möskvastærð í netum.