UNGLINGAMYNDIR hafa harðnað verulega undanfarið ár - það er staðreynd. Meira af öllu, en áður, ofbeldi, kynlífi, munnsöfnuði og hreinni og beinni siðbrenglun. Ástæðan? Scream, American Pie og allar þeirra eftirhermur. Ég veit ég hljóma eins og versti postuli núna, búinn að steingleyma öllum ísraelsku sleikjómyndunum, Porky's og allri þessari lágkúru sem við gelgjurnar gerðum heiðarlegar tilraunir til þess að smygla okkur inn á í Bíóhöllinni þegar þar var ennþá stiginn trylltur dans í kjallaranum. Má vera að ég sé bara kominn á aldur fyrir viðlíka menningu í dag en það er eitthvað sem gerir þessar myndir sem klárlega er beint að unglingum - eins og sú sem er til umræðu - grimmari, háskalegri og vafasamari. Ætli það sé ekki bara meiningin á bak við því þegar öllu er á botninn hvolft þá voru Porky's-myndirnar sárameinlausar og fjölluðu um lítið annað en það sem ungviðið var með á heilanum. Það er vonandi að þessi mynd gefi ekki hugmynd um hvað unga fólkið er með á heilanum í dag.
Hér er sem sagt unglingamyndin, dulbúin sem morðgáta. Hver gekk í skrokk á nýju vinkonunni í aðalpæjuhópnum? Þeirri sem eitt sinn var nörd, en tókst með klækjum að koma sér inn í klíkuna og verða aðaðalpæjan og sú frakkasta af þeim öllum? Hver gekk í skrokk á henni? Það var ekki langt liðið á myndina þegar mér var orðið nákvæmlega sama. Þá var lítið fútt eftir, annað en þokkaleg keyrsla í framvindu og býsna kröftug kvikmyndagerð sem slík. Það er allt og sumt. *½
Skarphéðinn Guðmundsson