VEGAGERÐIN hefur óskað eftir tilboðum í lagningu vegar og smíði brúar yfir Kolgrafarfjörð á norðanverðu Snæfellsnesi en verkið er boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Vegurinn verður 7,3 kílómetra langur og á að vera með 6,3 metra breiðu slitlagi.

VEGAGERÐIN hefur óskað eftir tilboðum í lagningu vegar og smíði brúar yfir Kolgrafarfjörð á norðanverðu Snæfellsnesi en verkið er boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Vegurinn verður 7,3 kílómetra langur og á að vera með 6,3 metra breiðu slitlagi.

Reist verður 230 metra brú og 530 metra fylling með grjótvörn yfir Kolgrafarfjörð. Brúin verður eftirspennt bitabrú með fjórum millistöplum þannig að haf á milli stöpla verður nálægt 45 metrum en dýpi í hafmiðju er um átta metrar.

Að sögn Eymundar Runólfssonar hjá Vegagerðinni á að skila tilboðum fyrir 10. mars og á verkinu að vera að fullu lokið í október árið 2005. Hann segir nýja veginn munu stytta leiðina um norðanvert Snæfellsnes umtalsvert eða um 6,2 kílómetra auk þess sem öryggi vegfarenda aukist verulega.

Skv. upplýsingum Vegagerðarinnar má líta svo á að þegar framkvæmdum við Kolgrafarfjörð verði lokið verði norðanvert Snæfellsnes eitt samgöngusvæði, sem muni styrkja byggðina þar verulega.