DAGLEGT flug Iceland Express til London og Kaupmannahafnar hefst á morgun, fimmtudag. Í tilefni af því koma hingað til lands 33 breskir blaðamenn.

DAGLEGT flug Iceland Express til London og Kaupmannahafnar hefst á morgun, fimmtudag. Í tilefni af því koma hingað til lands 33 breskir blaðamenn.

Ólafur Hauksson, talsmaður Iceland Express, segir að samið hafi verið við fjölda breskra fjölmiðla um að kynna Ísland og Iceland Express gegn því að lesendur, áhorfendur eða hlustendur fái ferðir til Íslands í vinning. Ennfremur sé verið að skipuleggja viðamikla auglýsingaherferð til að fjölga ferðamönnum utan fjölmennasta ferðamannatímans.

Ólafur segir að fyrirtækið hafi ráðið almannatengslafyrirtæki í London til að sjá um öll kynningarmál. Það hafi gert samninga við alls konar fjölmiðla um að gefa farmiða og í framhaldinu koma sjónvarpsmenn frá BBC hingað til lands í mars. Hann segir þetta hagstæðustu leiðina til að koma Íslandi á framfæri enda sé óskaplega dýrt að auglýsa í dagblöðum.

15 íslenskir flugliðar hafa verið ráðnir til að þjónusta farþega sem fljúga undir merkjum Iceland Express. Til að byrja með munu breskir flugmenn á vegum flugfélagsins Astraeus fljúga vélinni, en yfirflugstjóri félagsins hefur átt viðræður við íslenska flugmenn um að koma til starfa hjá félaginu.