Inga Fríða Guðbjörnsdóttir og Anton Ólafsson með dætrunum, Bríeti Sif og Söru Rún Hinriksdætrum.
Inga Fríða Guðbjörnsdóttir og Anton Ólafsson með dætrunum, Bríeti Sif og Söru Rún Hinriksdætrum.
PITSUSTAÐURINN Mamma mia hefur opnað að nýju í Sandgerði eftir gagngerar endurbætur og stækkun. Eigendurnir reyna með þessu að sækja á ný mið. Anton Ólafsson og Inga Fríða Guðbjörnsdóttir hafa rekið Mömmu miu í rúm tvö ár.

PITSUSTAÐURINN Mamma mia hefur opnað að nýju í Sandgerði eftir gagngerar endurbætur og stækkun. Eigendurnir reyna með þessu að sækja á ný mið.

Anton Ólafsson og Inga Fríða Guðbjörnsdóttir hafa rekið Mömmu miu í rúm tvö ár. Reksturinn byggist mest á að útbúa pitsur og senda heim til fólks. Þó hefur verið aðstaða á veitingastaðnum til að bera fram pitsur og aðrar léttar veitingar.

Veitingastaðurinn er við Hafnargötu, í endanum á gömlu salthúsi. Aðstaðan var lítil og nauðsynlegt að ráðast í breytingar. Anton segir að þau hafi ákveðið að stíga skref í viðbót, fá aukið húspláss, endurnýja staðinn og stækka. Opnuðu þau nýja veitingasalinn um helgina.

Þau munu leggja áherslu á að fá fólk meira á veitingastaðinn en áður. Í þeim tilgangi verður aukið við framboðið á matseðlinum og til stendur að halda einhvers konar uppákomur tvisvar í mánuði, helst með lifandi tónlist. Anton og Inga Fríða segja að Sandgerðingar séu áhugasamir um það sem gert sé í bæjarfélaginu og fjölmenni yfirleitt á slíka viðburði. "Annars hefur þetta gerst svo hratt hjá okkur að við höfum ekki haft ráðrúm til að átta okkur á því hvernig við getum best nýtt þessa aðstöðu. Það verður að koma í ljós," segir Inga Fríða.

Í nýja salnum eru sjónvörp og einnig stórt tjald til að horfa á útsendingar. Anton segir að áhugamenn um knattspyrnu og aðrar íþróttir hafi komið saman á gamla staðnum til að fylgjast með leikjum sinna liða og öðrum íþróttaviðburðum. Umtalsverður hluti viðskiptanna hafi til þessa tengst íþróttunum. Með nýja salnum batni aðstaðan fyrir þennan hóp til mikilla muna.