LÖGÐ verður til á Alþingi breyting á mörkum Reykjavíkurkjördæmis suður og Suðvesturkjördæmis í kjölfar breytinga á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs við Blesugróf.

LÖGÐ verður til á Alþingi breyting á mörkum Reykjavíkurkjördæmis suður og Suðvesturkjördæmis í kjölfar breytinga á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs við Blesugróf. Munu 10 manns sem búa á þessu svæði og tilheyrt hafa Kópavogi tilheyra Reykjavíkurkjördæmi suður verði af breytingunni.

Kynnt var í gær lagafrumvarp dómsmálaráðherra í ríkisstjórn og fyrir þingflokkum þar sem lagt er til að kjördæmamörkunum verði breytt. Reykjavíkurborg og Kópavogsbær sömdu á síðasta ári um breytingu á mörkum sveitarfélaganna í þá veru að nokkrar lóðir færast frá Kópavogi til Reykjavíkur. Félagsmálaráðuneytið hefur staðfest þá breytingu.

Við slíka breytingu á mörkum sveitarfélaga haldast kjördæmamörk óbreytt. Þarf því lagabreytingu til. Kjördæmamörkum verður ekki breytt nema með samþykki tveggja þriðju hluta atkvæða á Alþingi og er því ljóst að frumvarpið þarf slíkan meirihluta til að ná fram að ganga.