NÍU starfsmenn Vegagerðarinnar á Reykjanesi og í Grafarvogi hafa ritað forsætisráðherra bréf þar sem þeir lýsa óánægju sinni með skipulagsbreytingar á þjónustusvæði Reykjaness og birgðadeild í Grafarvogi. Breytingarnar hafa í för með sér að 8 af 33 starfsmönnum deildanna missa vinnuna.
Í bréfinu er lýst furðu á því að þessar uppsagnir skuli vera tilkynntar á sama tíma og ríkisstjórnin boði stórauknar fjárveitingar til vegagerðar til varnar atvinnuleysi. Óskað er eftir að forsætisráðherra beiti sér fyrir því að uppsagnirnar verði dregnar til baka sem allra fyrst.