Verðlaunatillaga að tónlistarhúsi.
Verðlaunatillaga að tónlistarhúsi.
MENNTAMÁLARÁÐHERRA hefur fengið heimild ríkisstjórnarinnar til að ganga frá samningum við Reykjavíkurborg um stofnun einkahlutafélags sem sjá mun um byggingu og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúss.

MENNTAMÁLARÁÐHERRA hefur fengið heimild ríkisstjórnarinnar til að ganga frá samningum við Reykjavíkurborg um stofnun einkahlutafélags sem sjá mun um byggingu og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúss. Síðastliðið vor þegar gengið var frá samkomulagi milli ríkis og Reykjavíkurborgar um byggingu hússins var gert ráð fyrir að heildarkostnaður yrði tæplega sex milljarðar króna og að framkvæmdir gætu hafist í ársbyrjun 2004.

Tómas Ingi Olrich segir að þessi heimild komi í kjölfar viðræðna sem hafi farið fram á milli fjármála-, menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. "Niðurstaða þeirra viðræðna var sú að heppilegast væri að taka á málinu þannig að stofna einkahlutafélag og það hefði síðan umboð til þess að stýra málinu."

Menntamálaráðherra segir að einkahlutafélagið verði í eigu ríkis og borgar í sömu hlutföllum og verkefnið sjálft, þ.e. 54% í eigu ríkisins og 46% í eigu Reykjavíkurborgar, ef um það semjist með þeim hætti sem allt bendi raunar til. "Nú verður gengið í það að ganga frá þessum samningum við Reykjavíkurborg og þá verður kominn einn aðili sem hefur með höndum alla umsýslu um þetta flókna verkefni, þ.e.a.s. að undirbúa sjálft útboðið, undirbúa upplýsingagjöf til fjárfestanna, annast ýmiss konar undirbúning er varðar verkefnið sjálft eins og t.d. faglega ráðgjöf varðandi hljómburð o.s.frv."