ERKIBISKUPSDÆMIÐ í Niðarósi verður 850 ára í sumar og munu Norðmenn minnast afmælisins þann 27. júlí. Von er á ýmsum tignum gestum til Niðaróss, m.a.

ERKIBISKUPSDÆMIÐ í Niðarósi verður 850 ára í sumar og munu Norðmenn minnast afmælisins þann 27. júlí.

Von er á ýmsum tignum gestum til Niðaróss, m.a. Walter Kasper kardínála frá Páfagarði og nokkrum kaþólskum biskupum en það er í fyrsta skipti frá siðaskiptum sem kaþólskur kardináli kemur þangað í heimsókn.

Tilheyrðu erkibiskupnum í Niðarósi í tæp 400 ár

Þá er einnig von á gestum frá Íslandi, Grænlandi, Orkneyjum, Færeyjum og fleiri stöðum sem tilheyrðu erkibiskupnum í Niðarósi í næstum því fjögur árhundruð.

Fulltrúi íslensku kirkjunnar við hátíðarhöldin verður Sr. Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup í Skálholti, en Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, verður á þeim tíma á þingi lútherska heimssambandsins í Winnipeg sem er haldið á sjö ára fresti. Þá munu Kristinn F. Árnason, sendiherra Íslands í Noregi, og norski sendiherrann á Íslandi, Kjell H. Halvorsen, verða meðal gesta.

Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, mun við hátíðarhöldin flytja ljóð sitt "I Nidaros" sem hann orti í tilefni afmælisins, en nýlega var ljóðabók hans, Sálmar á atómöld, gefin út á norsku í tengslum við 850 ára afmæli erkibiskupssetursins í Niðarósi.