"...Framsókn treystir sér ekki til að standa við kosningastefnuskrá sína í svo einföldu máli sem þessu."
SAMKÓP, samtök foreldra barna í grunnskólum í Kópavogi, sinna mikilvægu hlutverki innan skólakerfisins. Foreldrar og samtök þeirra hafa á síðari árum orðið æ virkari þátttakendur í skólastarfinu og nauðsynlegt er að efla samstarf heimila og skóla enn frekar. Um þetta hafa stjórnmálaflokkarnir í Kópavogi verið nokkuð sammála, a.m.k. í orði.
Styrkveitingu til Samkóps hafnað
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Kópavogs fyrir árið 2003 lögðum við í Samfylkingunni m.a. til að Samkóp yrðu styrkt til sinnar nauðsynlegu starfsemi um 500.000 krónur. Þetta er ekki há upphæð, en hefði breytt og bætt starfsumhverfi samtakanna að okkar mati. Tillagan var felld í bæjarstjórn með 8 atkvæðum Framsóknar og sjálfstæðismanna að viðhöfðu nafnakalli. Þetta er athyglisverð niðurstaða að því leyti að hún sýnir hve mikið er að marka kosningaloforð Framsóknar. Í stefnuskrá þeirra frá bæjarstjórnarkosningunum í fyrra segir nefnilega orðrétt: "Bæjaryfirvöld eiga að tryggja það mikilvæga starf sem fram fer á vegum Samkóps og á það að vera fastur liður á fjárhagsáætlun bæjarins." Samt felldu þeir tillögu Samfylkingarinnar sem snerist einmitt um þetta. Slík er orðheldni bæjarfulltrúa Framsóknar. Hér er vissulega ekki um háa upphæð að ræða í sjálfu sér og kannski einmitt þess vegna er sláandi að verða vitni að því að Framsókn treystir sér ekki til að standa við kosningastefnuskrá sína í svo einföldu máli sem þessu. Það verður fróðlegt að fylgjast með eftir því sem á kjörtímabilið líður hvort svona fari fyrir fleiri "loforðum" Framsóknarflokksins í Kópavogi.Eftir Sigrúnu Jónsdóttur
Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Höf.: Sigrúnu Jónsdóttur