RÚMLEGA 700 manns mættu á fund um lesblindu í Fjölbrautaskólanum í Ármúla í gærkvöldi. Samkomusalur skólans var fullur út úr dyrum og þurftu margir frá að hverfa. "Það voru brosandi andlit sem gengu hér út.

RÚMLEGA 700 manns mættu á fund um lesblindu í Fjölbrautaskólanum í Ármúla í gærkvöldi. Samkomusalur skólans var fullur út úr dyrum og þurftu margir frá að hverfa. "Það voru brosandi andlit sem gengu hér út. Fundurinn var mjög jákvæður, það var hlegið og fólk kynntist spennandi leiðum til að sigrast á lesblindu," sagði Sveinbjörg Sveinbjarnardóttir, sem skipulagði fundinn ásamt Elínu Vilhelmsdóttur. Þær eru umsjónarkennarar lesblindra nemenda við FÁ og fengu Axel Guðmundsson til að kynna svokallað Davis-kerfi sem á að hjálpa lesblindum.

Fundargestir, sem Morgunblaðið ræddi við, voru á því að hin mikla aðsókn að fundinum sýndi vel hversu umfangsmikið vandamál lesblinda væri og brýn þörf á lausnum, sem virkuðu. Fundurinn dróst á langinn og sagði Sveinbjörg að fólk hefði hreinlega ekki viljað fara. Hún sagði að fólk hefði fengið mikinn stuðning hvert frá öðru. Margir sem þarna voru glímdu sjálfir við lesblindu, sumir vildu kenna lesblindum og aðrir leiðbeina börnum sínum.

Hún sagði að nokkrir hefðu talið Davis-kerfið jafnvel ýta undir of miklar væntingar þótt vonin leiði fólk langt áfram. "Allir sem þarna komu voru að leita lausna," sagði Sveinbjörg.