Í ARINSTOFU Listasafns ASÍ stendur yfir sýning á verkum fimm listamanna, en verkin eru öll í eigu safnsins. Listamennirnir eru Eggert Magnússon, Ísleifur Konráðsson, Samúel Jónsson, Sigurlaug Jónsdóttir og Stefán Jónsson frá Möðrudal. Eggert Magnússon...

Í ARINSTOFU Listasafns ASÍ stendur yfir sýning á verkum fimm listamanna, en verkin eru öll í eigu safnsins. Listamennirnir eru Eggert Magnússon, Ísleifur Konráðsson, Samúel Jónsson, Sigurlaug Jónsdóttir og Stefán Jónsson frá Möðrudal.

Eggert Magnússon (f. 1915) hætti til sjós 1960 og fór þá að mála. Eggert málar fyrst og fremst sögur og atburði úr fortíð sinni, sem oft tengjast hafinu og lífríki þess. Ísleifur Konráðsson (1889-1972) frá Steingrímsfirði sækir myndefni sín til náttúru og bændamenningar. M.a. eru sýnd tvö verk sem safninu bárust nýlega að gjöf frá Valtý Sigurðssyni. Samúel Jónsson (1884-1969) frá Brautarholti í Selárdal málaði og steypti myndir jöfnum höndum. Eftir hann er sýnd altaristafla sem hann málaði fyrir kirkjuna í Selárdal. Þegar altaristaflan var afþökkuð réðst hann í að byggja kirkju fyrir töfluna. Sigurlaug Jónsdóttir (1913) er frá Öxney á Breiðafirði. Hún sækir myndefni sín í sína eigin fortíð og eiga þau sér ætíð stoð í raunveruleikanum. Stefán Jónsson frá Möðrudal (1908-1994) er einnig þekktur sem Stórval. Sýnd er hestamyndin Vorleikur en Stefán var í eina tíð tekinn fastur fyrir að sýna Vorleik á Lækjartorgi, þar sem myndin var talin brjóta í bága við almennt velsæmi.

Sýningin stendur til 9. mars. Listasafn ASÍ, Freyjugötu 41, er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 13-17. Aðgangur er ókeypis.