SIR Isaac Newton, enski stærð- og eðlisfræðingurinn sem setti fram undirstöðulögmál aflfræðinnar, m.a. þyngdarlögmálið, spáði heimsendi árið 2060. Þetta kemur fram í minnisblöðum Newtons sem rannsökuð hafa verið í ísraelska landsbókasafninu í Jerúsalem.

SIR Isaac Newton, enski stærð- og eðlisfræðingurinn sem setti fram undirstöðulögmál aflfræðinnar, m.a. þyngdarlögmálið, spáði heimsendi árið 2060. Þetta kemur fram í minnisblöðum Newtons sem rannsökuð hafa verið í ísraelska landsbókasafninu í Jerúsalem.

Kanadískur fræðimaður við King's College í Halifax fann dómsdagsspána í 4.000 síðna minnisgreinum vísindamannsins, að sögn forstöðumanns bókasafnsins, Raphaels Weisers.

Newton var uppi 1642-1727 og auk þess að vera brautryðjandi í vísindum hafði hann mikinn áhuga á Biblíunni og heimsslitafræði, þeirri grein guðfræðinnar sem fjallar um hinstu hluti, dauðann og dóminn og það sem þá tekur við.

Skrifaði rit um spádóma Daníels

Newton skrifaði rit um spádóma Daníels í Gamla testamentinu og Opinberunarbók Jóhannesar. Ritið var gefið út sex árum eftir dauða Newtons en minnisgreinar hans voru ekki rannsakaðar til hlítar fyrr en nú.

Kunnur bókasafnari og prófessor í semískum tungumálum, Abraham Shalom Yahuda, íraskur gyðingur, komst yfir minnisblöðin á uppboði á fjórða áratug síðustu aldar og bókasafnið fékk þau síðan til varðveislu eftir dauða hans á sjötta áratugnum.

Jerúsalem. AFP.

Höf.: Jerúsalem. AFP