HÁLFS árs stúlka og þriggja ára drengur voru gefin saman í Nepal á dögunum og hjónavígslan endaði með því að mæður þeirra gáfu brúðhjónunum brjóst.
Börnin voru gift þrátt fyrir að lög landsins kveði á um að karlmenn þurfi að vera 21 árs og stúlkur 18 ára til að ganga í hjónaband.
Þegar hindúaprestur var að gefa börnin saman varð stúlkan svo hrædd að hún fór að gráta. Móðir hennar stöðvaði athöfnina og börnin fengu brjóstamjólk, að sögn nepalska dagblaðsins Taja Khabar.
Foreldrar barnanna höfðu óttast að þau myndu ekki finna maka síðar á ævinni. Fjölskylda brúðarinnar vildi halda brúðkaup og eyddi andvirði 80.000 króna í veisluna.
Katmandu. AFP.