GOETHE-Institut í Kaupmannahöfn hefur staðið fyrir verkefni þar sem 100 verk jafn margra rithöfunda af yngri kynslóðinni sem skrifa á þýska tungu eru kynnt. Verkin eru öll gefin út á árunum 1999-2001 og eru til kynningar í þeim löndum þar sem Goethe-stofnunin starfar. Goethe-Zentrum í Reykjavík tekur þátt í þessu verkefni og afhenti nýlega Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni eintak af þessum bókum. Þar verða þær skráðar og hafðar til útláns. Rithöfundar "af yngri kynslóðinni" teljast þeir sem fæddir eru árið 1953 eða síðar. Þessar 100 bækur teljast vera góður þverskurður þýskra bókmennta síðustu ára enda hafa þær hlotið sérstaklega lofsamlega dóma í Þýskalandi og sumar verið verðlaunaðar.
Af þessu tilefni mun skáldkonan Felicitas Hoppe lesa úr bók sinni Pigafetta í Landsbókasafni 27. mars nk.