Loðnufrysting er hafin hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum en hingað til hefur aðeins verið fryst  fyrir Rússlandsmarkað.
Loðnufrysting er hafin hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum en hingað til hefur aðeins verið fryst fyrir Rússlandsmarkað.
MOKVEIÐI er nú á loðnumiðunum og fylla skipin sig hvert á fætur öðru í fáum köstum. Loðnan veiðist nú á um 10 faðma dýpi norður af Tvískerjum.

MOKVEIÐI er nú á loðnumiðunum og fylla skipin sig hvert á fætur öðru í fáum köstum. Loðnan veiðist nú á um 10 faðma dýpi norður af Tvískerjum. Loðnufrysting er nú komin á fullt skrið víðast hvar en loðnan er smá og hentar illa til frystingar á Japansmarkað.

Loðnufrysting hófst hjá Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum um síðustu helgi en Þór Vilhjálmsson innkaupastjóri segir að enn hafi lítið verið fryst á Japan. "Við höfum aðallega fryst á Rússlandsmarkað enn sem komið er. Loðnan er því miður of smá til að frysta hana á Japan. Það er vitanlega hvimleitt, því hrognafyllingin í henni er hæfileg og hún er sömuleiðis átulaus. Við vonum að úr rætist en það er hins vegar oft þannig að loðnan er stærst í fyrstu göngunni."

Mörg loðnuskip eru nú langt komin með kvóta sína og vonast loðnusjómenn eftir að kvótinn verði aukinn. Rannsóknarskipið Árni Friðriksson RE hefur verið að mæla stofnstærð loðnunnar og samkvæmt heimildum sækist mælingin seint. Niðurstöðu mælinganna er að vænta á næstu dögum. Hjálmar Vilhjálmsson leiðangursstjóri segir lítið af fjögurra ára kynþroska loðnu í veiðinni og varla að vænta stærri loðnu úr þessu. Uppistaðan í veiðinni sé þriggja ára loðna og hún sé vel haldin.