VÆNTINGAVÍSITALA Gallup hækkar annan mánuðinn í röð og mælist 106,6 stig fyrir febrúarmánuð. Vísitalan var 103,1 stig í janúar en 98,8 stig í desember 2002. Vísitalan nú er svipuð og í nóvember síðastliðnum en þá var hún 107,0 stig.

VÆNTINGAVÍSITALA Gallup hækkar annan mánuðinn í röð og mælist 106,6 stig fyrir febrúarmánuð. Vísitalan var 103,1 stig í janúar en 98,8 stig í desember 2002. Vísitalan nú er svipuð og í nóvember síðastliðnum en þá var hún 107,0 stig. Hún er hins vegar 6,9 stigum undir því sem hún hefur verið hæst, frá því mælingar hennar hófust í mars 2001, en vísitalan mældist 113,5 stig í september á síðasta ári.

Meðalgildi væntingavísitölunnar á þeim tíu mánuðum ársins 2001 sem hún var mæld var 82,4 stig. Á árinu 2002 var meðalgildi vísitölunnar 103,6 stig.

Væntingavísitala Gallup mælir tiltrú og væntingar fólks til efnahagslífsins, atvinnuástandsins og heildartekna heimilisins. Hún er mæld á sama hátt og Consumer Confidence Index í Bandaríkjunum. Í tilkynningu frá IMG segir að í Bandaríkjunum sé vísitalan talin hafa gott forspárgildi um þróun á einkaneyslu.

Vísitalan getur tekið gildi á bilinu 0-200. Hún tekur gildið 100 þegar jafnmargir eru jákvæðir og neikvæðir, en er hærri þegar fleiri eru jákvæðir en neikvæðir.