SALA á 2,5% hlutafjár ríkisins í Landsbanka Íslands hf., sem hófst klukkan 10 í gær, lauk á innan við mínútu. Um var að ræða hlut að nafnverði 170,5 milljónir króna.

SALA á 2,5% hlutafjár ríkisins í Landsbanka Íslands hf., sem hófst klukkan 10 í gær, lauk á innan við mínútu. Um var að ræða hlut að nafnverði 170,5 milljónir króna. Útboðsgengið var 3,73 og var söluandvirði 2,5% hlutar ríkisins því um 636 milljónir króna.

Ríkið á nú engan hlut í Landsbanka Íslands en það seldi um síðustu áramót Samsoni fjárfestingarfélagi 45,8% hlut í bankanum.

Kemur sér vel til atvinnuuppbyggingar

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist gleðjast yfir hve vel hafi tekist til með sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum. Hún segir þetta vera í takt við breytta tíma. Það eigi ekki að vera hlutverk ríkisins að reka banka. Hlutverk ríkisins í þessum efnum verði þó áfram mikilvægt við að tryggja eðlilegt umhverfi og eftirlit. Þá segir hún að það fjármagn sem fáist við söluna á 2,5% hlut ríkisins í Landsbankanum muni koma sér vel til atvinnuuppbyggingar.