NÝJAR reglur um upplýsingagjöf um launakjör stjórnenda verða kynntar á fjölmiðlafundi í Kauphöll Íslands í dag. Í tilkynningu frá Kauphöllinni segir að hinn 8.

NÝJAR reglur um upplýsingagjöf um launakjör stjórnenda verða kynntar á fjölmiðlafundi í Kauphöll Íslands í dag.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni segir að hinn 8. október 2002 hafi stjórn Kauphallar Íslands samþykkt að skipa starfshóp til að gera tillögur til stjórnar um breytingar á reglum um upplýsingaskyldu útgefenda hlutabréfa um starfskjör og hlutabréfaeign stjórnenda. Markmiðið með starfi hópsins var að smíða skýrari og gagnsærri reglur um þetta efni sem tækju mið af hliðstæðum reglum í kauphöllum vestan hafs og austan. Í samþykkt stjórnarinnar segir, að tillögur starfshópsins skuli taka bæði til upplýsingagjafar í skráningarlýsingu og viðvarandi upplýsingaskyldu.

Starfshópinn skipuðu Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, en hann var formaður hópsins, Árni Tómasson, bankastjóri Búnaðarbanka Íslands hf., Viðar Már Matthíasson, prófessor í Háskóla Íslands, og Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands. Ritari hópsins var Ragnar Þ. Jónasson, lögfræðingur í Kauphöll Íslands.

Í tilkynningunni segir að á fjölmiðlafundinum verði kynnt í hverju reglurnar felast í meginatriðum en um mikilvæga breytingu á upplýsingagjöf til markaðarins sé að ræða.