KOSNINGAR til stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) og Háskólafundar hefjast í dag og þeim lýkur á morgun, fimmtudag.

KOSNINGAR til stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) og Háskólafundar hefjast í dag og þeim lýkur á morgun, fimmtudag.

Þrjár fylkingar stúdenta berjast um völdin í stúdentaráði að þessu sinni: Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, Röskva, samtök félagshyggjufólks og Háskólalistinn.

Fyrir ári sigraði Vaka í kosningunum en þá hafði Röskva stjórnað stúdentaráði í 12 ár. Nú býður Háskólalistinn fram í fyrsta sinn og segja fulltrúar hans að listinn sé óháður pólitískum flokkum og stefnum.

Kosið er um 18 sæti í stúdentaráði og sex sæti á Háskólafundi. Sú fylking sem hlýtur meirihluta atkvæða fer með stjórn stúdentaráðs.

Allir stúdentar í Háskóla Íslands eru kjörgengnir og geta kosið í hvaða kjördeild sem er. Kjörfundur er opinn frá kl. 9 til 13 í dag og frá kl. 9 til 18 á morgun.