NJARÐVÍKINGAR hafa fengið bandarískan leikmann til reynslu og mun hann leika með liðinu gegn Grindavík á föstudag.

NJARÐVÍKINGAR hafa fengið bandarískan leikmann til reynslu og mun hann leika með liðinu gegn Grindavík á föstudag. Leikmaðurinn heitir Gregory Harris og er 25 ára gamall bakvörður sem hefur leikið sem atvinnumaður með Wevelgem í Belgíu og var hann stigahæsti leikmaður deildarinnar keppnistímabilið 2000-2001 og að auki var hann með flestar stoðsendingar að meðaltali. Harris var leystur undan samningi sínum við félagið ári síðar vegna meiðsla.

Harris lék í fjögur ár með háskólaliði Mt.St. Mary's þar sem hann skoraði rúm 16 stig að meðaltali. Friðrik Ragnarsson, þjálfari Íslandsmeistaraliðs Njarðvíkur, sagði í gær að hann vonaðist til þess að Harris gæti leyst þau verkefni sem honnum væru ætluð og markmiðið væri að verja titilinn. "Við erum ekki það lið sem er líklegast til þess að vinna Íslandsmótið en við stefnum auðvitað að því að verja titilinn og miðað við fortíð Harris vonar maður að hann sé rétti maðurinn fyrir okkur. En við verðum að láta verkin tala," sagði Friðrik en Njarðvík hóf leiktíðina með Bandaríkjamanninn Peter Philo sem fór vegna meiðsla og á dögunum var Gary Hunter sagt upp störfum. Njarðvíkingum hefur ekki gengið vel að undanförnu. Þeir hafa tapað fjórum af fimm síðustu leikjum sínum og eru í sjötta sæti deildarinnar.