STEFNT er að því að byggja tvo nýja stúdentagarða með samtals 160-210 íbúðum á næstunni í Reykjavík.

STEFNT er að því að byggja tvo nýja stúdentagarða með samtals 160-210 íbúðum á næstunni í Reykjavík. Samkomulag milli Félagsstofnunar stúdenta og Reykjavíkuborgar þar um er á lokastigi að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Stúdentaráði Háskóla Íslands.

Segir í tilkynningunni að verið sé að ganga frá lausum endum og tæknilegum atriðum samkomulagsins en annar garðanna verður í miðborg Reykjavíkur en hinn á Hlíðarenda, nærri félagsheimili Vals.

Byrjað að byggja á Valssvæðinu í haust

Er gert ráð fyrir að hefjast handa við byggingu stúdentaíbúðanna á Valssvæðinu í haust og að fljótlega eftir það verði ráðist í gerð 80-130 íbúða garðs við Lindargötu.

"Stúdentaráð hefur í vetur lagt á það mikla áherslu að stúdentaíbúðum verði fjölgað enda er ástandið á leigumarkaði verulega óhagstætt og íbúðaverð á almennum fasteignamarkaði hátt," segir í tilkynningunni.