Flugkennarar við Flugskóla Íslands eru nánast verklausir meðan bannað er að nota flugvélabensínið sem til er í landinu nema til sjúkraflugs.
Flugkennarar við Flugskóla Íslands eru nánast verklausir meðan bannað er að nota flugvélabensínið sem til er í landinu nema til sjúkraflugs.
BANN við flugi lítilla flugvéla er enn í gildi og segir Guðlaugur Sigurðsson, framkvæmdastjóri verklegrar deildar Flugskóla Íslands, að það sé mjög bagalegt fyrir skólann að geta ekki kennt sem stendur.

BANN við flugi lítilla flugvéla er enn í gildi og segir Guðlaugur Sigurðsson, framkvæmdastjóri verklegrar deildar Flugskóla Íslands, að það sé mjög bagalegt fyrir skólann að geta ekki kennt sem stendur. Skólinn á 14 flugvélar og segir hann þær hafa verið mikið nýttar undanfarið í verklegu kennslunni.

Bannið nær ekki til flugvéla og þotna sem nota þotueldsneyti. Guðlaugur segir að sýni úr bensínbirgðunum hér séu nú til athugunar í Bretlandi. Niðurstöður séu væntanlegar í dag og verði þær neikvæðar sé ljóst að erfiður tími sé framundan. Nýr farmur af bensíni sé ekki væntanlegur fyrr en um miðjan mars. Nauðsynlegt var að tæma tanka flugvélanna sem notað hafa gallaða bensínið og þarf einnig að skipta um síur.

Sömu sögu er að segja af Flugfélaginu Geirfugli sem hefur sinnt flugkennslu. Matthías Arngrímsson, flugmaður og einn flugkennaranna, sagði að engin kennsla yrði hjá félaginu meðan bannið gilti enda hefði verið notað bensín frá dælu í Fluggörðum á vélar félagsins. Hann segir nú til athugunar hvort truflanir sem fram hafi komið í einni véla félagsins megi rekja til hins gallaða bensíns.