Leifar húss fjarskiptasendistöðvar varnarliðsins á "Broadstreet", skammt frá Seltjörn.
Leifar húss fjarskiptasendistöðvar varnarliðsins á "Broadstreet", skammt frá Seltjörn.
SVÆÐIÐ "Broadstreet" við Seltjörn sem Litboltafélag Suðurnesja og Vélhjólaíþróttafélag Reykjaness hafa formlega fengið afnot af til æfinga og keppni tekur nafn sitt af fjarskiptasendistöð sem varnarliðið rak þar til ársins 1955.

SVÆÐIÐ "Broadstreet" við Seltjörn sem Litboltafélag Suðurnesja og Vélhjólaíþróttafélag Reykjaness hafa formlega fengið afnot af til æfinga og keppni tekur nafn sitt af fjarskiptasendistöð sem varnarliðið rak þar til ársins 1955. Steyptu húsatóftirnar sem blasa við af Reykjanesbrautinni eru byggingar fjarskiptastöðvarinnar.

Þessi stöð var upphaflega reist á stríðsárunum, samkvæmt upplýsingum Friðþórs Eydal upplýsingafulltrúa varnarliðsins, og stóð þá við gamla Grindavíkurveginn þar sem hann lá frá vegamótum gamla Keflavíkurvegarins uppi á Vogastapa og niður að Seltjörn. Húsið sem þarna stendur eftir var reist yfir starfsemina árið 1948 er stöðin þjónaði þá fjarskiptum vegna Keflavíkurflugvallar sem þá var rekinn af bandarísku verktakafyrirtæki.

Eins og sést á þessu er það ekki rétt sem fram kom í blaðinu á dögunum að rústir gamals hersjúkrahúss væru á "Broadstreet." Friðþór segir að þessu sé oft ruglað saman. Spítalinn stóð á flötinni sem Reykjanesbrautin liggur um austast á Vogastapanum, þ.e. strax þegar komið er upp fyrstu brekkuna á leið frá Reykjavík. Þar liggur vegur á hægri hönd upp á gamla Keflavíkurveginn og var upphaflega vegurinn niður í spítalakampinn. Spítalinn eyðilagðist í bruna árið 1946 og það sem eftir stóð var fjarlægt. Þar sjást því engar húsatóftir. Þó má enn sjá norðanvert við Reykjanesbrautina á leið upp brekkuna steypta brunna á stangli sem marka legu skolplagnarinnar sem lá frá spítalanum og til sjávar í Vogavík.