EFTIRFARANDI yfirlýsing hefur borist frá stjórn Geðhjálpar: "Stjórn Geðhjálpar lýsir fullum stuðningi við kröfur Barnageðlæknafélags Íslands og yfirlæknis barna- og unglingageðdeildar LSH um tafarlausar úrbætur á því ófremdarástandi sem lengi hefur...

EFTIRFARANDI yfirlýsing hefur borist frá stjórn Geðhjálpar:

"Stjórn Geðhjálpar lýsir fullum stuðningi við kröfur Barnageðlæknafélags Íslands og yfirlæknis barna- og unglingageðdeildar LSH um tafarlausar úrbætur á því ófremdarástandi sem lengi hefur ríkt í málefnum geðsjúkra barna. Það er ótækt að ekki skuli haft samráð við þessa aðila um skipan nefndar sem koma á með tillögur til lausnar.

Stjórn Geðhjálpar vill ennfremur benda á slæma stöðu geðheilbrigðisþjónustunnar almennt, þar sem fjárskortur hamlar á ýmsum sviðum nauðsynlegri þjónustu við geðsjúka. Niðurskurður í málaflokknum undanfarin ár hefur bitnað á börnum og fullorðnum á sama tíma og viðurkennt er að geðheilsuvandamál færist almennt í vöxt.

Ríkisstjórnin hefur nýlega ákveðið að veita í skyndi um sex milljarða króna til vegagerðar og smíði menningarhúsa á landsbyggðinni. Af þessu tilefni leyfir stjórn Geðhjálpar sér að efast um að forgangsröðunin sé rétt þegar málefni geðsjúkra barna og fullorðinna eru í þeim ógöngum sem raun ber vitni. Uppbygging heilbrigðisþjónustu er líka atvinnuskapandi. Geðhjálp skorar á stjórnvöld að taka málaflokkinn til gagngerrar endurskoðunar þegar brugðist hefur verið við bráðavanda barna- og unglingageðdeildar og þá með þátttöku hagsmunaaðila, notenda geðheilbrigðisþjónustunnar."