MIKIL sala hefur verið í þráðlausum nettengingum og er ástæðan fyrst og fremst sú að hægt er að fá búnað sem hentar heimilum á hagstæðara verði en áður, að sögn Andrésar Arnarsonar, sölufulltrúa hjá EJS hf.

MIKIL sala hefur verið í þráðlausum nettengingum og er ástæðan fyrst og fremst sú að hægt er að fá búnað sem hentar heimilum á hagstæðara verði en áður, að sögn Andrésar Arnarsonar, sölufulltrúa hjá EJS hf.

Andrés segir að innbyggður eldveggur sé yfirleitt í þessum búnaði í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að utanaðkomandi noti búnaðinn á kostnað eiganda. Hins vegar sé stillingin sú sama á öllum eins tækjum frá framleiðanda og því sé mikilvægt að breyta stillingunni í hverju tilviki til að koma í veg fyrir misnotkun og sé mælt með því í upplýsingabæklingum sem fylgja búnaðinum.

Gjald fyrir notkunina er misjafnt. Hjá Símanum er t.d. mánaðargjaldið fyrir Internet um ISDN Plús 1.320 kr. og er þá 100 MB gagnamat innifalið, en umframnotkun kostar 2,50 kr. fyrir hvert MB. Hafi stillingu á eldveggnum ekki verið breytt getur utanaðkomandi hugsanlega notað tenginguna, vísvitandi eða óvísvitandi, og náð sér t.d. í bíómynd á kostnað eigandans, en kostnaður við það getur verið frá um 3.500 kr. til 5.000 kr.