Þýska stórveldið í knattspyrnu, Bayern München, gæti átt það á hættu að missa meistaratitilinn sem liðið vann árið 2001 vegna samnings sem liðið gerði við fjölmiðlarisann KirchMedia, sem var síðar úrskurðað gjaldþrota í apríl á sl. ári.

Þýska stórveldið í knattspyrnu, Bayern München, gæti átt það á hættu að missa meistaratitilinn sem liðið vann árið 2001 vegna samnings sem liðið gerði við fjölmiðlarisann KirchMedia, sem var síðar úrskurðað gjaldþrota í apríl á sl. ári.

Báðir aðilar eru ásakaðir um spillingu og brot á skattalöggjöf vegna samnings sem Bayern München gerði á bak við tjöldin við KirchMedia og tryggði liðinu 1,58 milljarða ísl. kr. tekjur á þriggja ára tímabili án vitundar annarra liða í deildinni eða þýska knattspyrnusambandsins.

Forráðamenn Bayern þurfa nú að svara fyrir sig í réttarsölum í Þýskalandi á næstunni því málið verður rannsakað ofan í kjölinn. Forráðamenn annarra liða í 1. deildinni hafa margir hverjir látið í ljós þá skoðun sína að Bayern München ætti að skila verðlaunum sínum frá árinu 2001 þar sem liðið hefði haft rangt við í samingum sínum.

Uli Höness, framkvæmdastjóri Bayern München, segir að liðið hafi ekki brotið nein lög eða haft rangt við í samningsgerð sinni sem enginn vissi af nema samningsaðilar, KirchMedia og Bayern München.

"Slíkir samningar eru algengir og við vorum í þeirri aðstöðu að geta samið um þessa hluti. Ég er fullviss um að án okkar framlags og ímyndar hefðu önnur lið ekki borið eins mikið úr býtum eins og raunin varð á.

Það eru of margir sem öfunda okkur og vilja skaða okkur en ég fullyrði að við gerðum ekkert rangt," segir Höness.