GuðmundurÞóroddsson
GuðmundurÞóroddsson
GUÐMUNDUR Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að þar sem þegar hafi verið tekin ákvörðun um að flýta framkvæmdum við Nesjavallavirkjun, þaðan sem áætlað er að um 40 MW komi vegna fyrirhugaðrar stækkunar Norðuráls, þurfi ekki að grípa til...

GUÐMUNDUR Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að þar sem þegar hafi verið tekin ákvörðun um að flýta framkvæmdum við Nesjavallavirkjun, þaðan sem áætlað er að um 40 MW komi vegna fyrirhugaðrar stækkunar Norðuráls, þurfi ekki að grípa til sérstakra aðgerða vegna yfirlýsingar Landsvirkjunar um að flýta framkvæmdum við Norðlingaölduveitu.

Í síðustu viku var ákveðið að Orkuveitan myndi flýta framkvæmdum fyrir um 1.200-1.700 milljónir króna svo meginþungi þeirra verði á þessu ári og því næsta í stað áranna 2005-2006. Áætlað er að fjórða vélasamstæðan við Nesjavallavirkjun, sem eykur raforkuframleiðslu úr

90 MW í 120 MW, verði tilbúin um áramótin 2005-6, en framkvæmdir munu hefjast strax í vor.

Eftir er að ganga frá nokkrum atriðum við Landsvirkjun

"Við höfðum reiknað með því að fara hratt í þessa virkjun fyrir Norðurál, en við þurfum að herða okkur enn frekar," sagði Guðmundur í gær. "Þar sem orkan mun koma frá Nesjavöllum, þar sem við höfum verið með virkjun í fimmtán ár, er ekki margt nýtt sem við eigum von á þar," segir Guðmundur spurður um hvort fara þurfi í rannsóknir á svæðinu til að flýta enn frekar fyrir framkvæmdum.

Guðmundur segir að enn eigi eftir að ganga frá nokkrum atriðum við Landsvirkjun varðandi orkuöflunina. "Það er verið að ganga frá magni, verði, tímasetningum og afhendingu og þess háttar endanlega. Það verður gengið frá þessu að einhverju leyti í þessari viku, en það mun taka einhverjar vikur að ganga endanlega frá samningnum."