VETRARHÁTÍÐ í Reykjavík hefst annaðkvöld og stendur yfir fram á sunnudag. Þetta í annað sinn sem þessi hátið er haldin. Svanhildur Konráðsdóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, segir tæplega 90 viðburði á boðstólum fyrir fólk á öllum aldri.
"Best er að lýsa stærstu viðburðunum sem sjónarpili," segir hún. Þá er mikið unnið með samspil ljóss og efnis til að fanga athygli áhorfandans og skapa sérstæða upplifun. Sem dæmi nefnir Svanhildur verðlaunaverk sem verða sýnd á opnunarathöfninni á fimmtudagskvöld. Annað þeirra byggist á ljóshýsi í tjarnarhólmanum sem smám saman fyllist af ljósi sem er veitt upp úr tjörninni. Hitt samanstendur af regnbogabrú og mun glitra yfir tjörninni.
"Á föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld verður útibíó á Ingólfstorgi," sem Svanhildur segir verkefni af öðru toga og dirfskufullt á þessum árstíma. "Á föstudeginum opnar Haraldur Jónsson myndlistarmaður verkið Tilfinningar á Skólavörðustígnum hjá SPRON. Þá er tilfinningum varpað út á gangstéttina og fólk getur gengið inn í um 80 tilfinningar og upplifað hverja og eina."
Níu metra hátt tjald úr vatni
Lokaathöfn vetrarhátíðarinnar í Reykjavík verður í Elliðarárdalnum á sunnudagskvöld. Þar hefur Orkuveita Reykjavíkur útbúið níu metra hátt tjald úr vatni. "Niður tjaldið streymir niður glitrandi vatn og á það verður varpað skemmtilegum og óvenjulegum myndum," segir Svanhildur full eftirvæntingar enda sjónarspil helgarinnar nærandi fyrir sál borgarbúa. Á bak við sjónarspilið eru stofnanir að sýna sig í öðru ljósi og leyfa fólki að gægjast bak við tjöldin."Höfuðborgarstofa er að sjá um þetta í fyrsta skipti núna. Við erum spennt að vinna að þessu áfram og þetta verði jafn ómissandi þáttur í lífi borgarinnar á útmánuðum eins og menningarnótt er síðsumars, " segir Svanhildur. Þar að auki gæðir þetta borgina lífi utan hefðbundins ferðamannatíma, sem skapar sóknarfæri, léttir lund Íslendinga og styttir biðina eftir vorinu.
Henni finnst vel við hæfi að fá sérstaka gesti á Vetrarhátið frá Finnlandi. "Það er mjög óvenjuleg hljómsveit sem sett er saman af þremur finnskum karlkyns verkfræðingum. Þeir koma fram í kjólum og spila á hljóðfæri sem eru búin til úr þvottasnúrum, þurrkgrindum og ýmsu sem tengist þrifnaði," segir Svanhildur sem telur þá óvenjulega, eilítið galna en umfram allt ótrúlega skemmtilega.
Undanfarnar vikur hafa leikskólabörn í Reykjavík verið að vinna að gerð mynda sem byggjast á þjóðsögum. "Þær verða hengdar á þvottasnúrur um Austurvöll á hádegi á laugardaginn." Þetta er því hátíð sem miðar að því að fjölskyldufólk getur mætt á flesta viðburði og skemmt sér saman.
Blað um vetrarhátíðina fylgdi Morgunblaðinu í gær og einnig er hægt að nálgast dagskrána á netinu með því að smella á auglýsingu Vetrarhátíðar á Reykjavik.is og Mbl.is.