Höfundur: Jacqueline Wilson. Teikningar: Nick Sharratt. Þýðing: Þórey Friðbjörnsdóttir. 182 bls. JPV útgáfa, 2002.

STELPUR í stuði er þriðja bókin um unglingsstúlkuna Ellie og vinkonur hennar, Mögdu og Nadine, en áður hafa þær vinkonur verið í strákaleit og í stressi. En sem fyrr segir eru þær í stuði nú, því draumagæinn hreinlega gengur beint í fangið á Ellie. En það er þó ekki draumur einn, því þá fyrst byrja vandræðin með foreldrana og afbrýðisamar vinkonur.

Jacqueline Wilson er mjög vinsæll barna- og unglingabókahöfundur í heimalandi sínu, Englandi. Hún hittir víst mikið lesendur sína, en ég held þó að vinsældir hennar stafi af því hversu vel hún nær hugarheimi unglinga. Ég hef ekki lesið barnabók eftir hana, en unglingabækurnar eru mjög vel skrifaðar. Ekki spillir fyrir þýðing Þóreyjar Friðbjörnsdóttur sem er hin fínasta. Málfarið er létt, hversdagslegt og trúverðugt, án þess að verða fullt af nýjustu unglingaslettunum sem enginn veit hversu lengi lifa.

Bókin er sögð í fyrstu persónu sem er algengt í unglingabókum í dag. Það er áhrifarík aðferð þar sem enginn kemur á milli lesanda og sögumanns og lesandi hefur strax eignast vinkonu sem trúir honum fyrir öllu, sem er mjög mikilvægt á þessum árum. Og lesandinn leggur þar með af stað í rússíbanaferð í tilfinningalandi aðalpersónunnar, Elliear.

Ellie er klár stelpa en ekki alltof ánægð með útlitið. (Margir kannast við þá tilfinningu!) Hún er engin ofurpæja heldur frekar þybbin og finnst krullað hárið á sér óþolandi. Hún minnir mig svolítið á Möggu Stínu í Peð á plánetunni jörð, það er kannski helst að Magga Stína hafi enn einstakari og beittari húmor en Ellie, sem er þó býsna sterk í kaldhæðninni. Vinkonur hennar eru líka skemmtilegar og skýrar persónur. Og saman lenda þær í öllu því erfiða og átakanlega sem stelpur þurfa að ganga í gegnum á unglingsárunum - þegar á að æfa sig að verða fullorðinn. Ég var mjög hrifin af bókinni Stelpur í stressi þar sem m.a var fjallað um átröskun, margar orsakir hennar og afleiðingar með mjög mannlegum og átakanlegum hætti. Nú vakir fyrir Wilson að vara stelpur við að margur er úlfur í sauðargæru, ekki elta hvaða strák sem er, jafnvel þótt hann virki spennandi og mann langi að prófa að eiga kærasta. Það er í sjálfu sér auðvitað fínt og frásögnin öll er vissulega lifandi eins og höfundinum er lagið. En mér fannst ekki næg átök í bókinni. Hvorki fyrir Ellie við afbrýðisaman pabba og vinkonur né í hættuatriðinu þegar þær stelpur álpast upp í bíl með ókunnugum gaurum.

Það er ótrúlegt hvað heimurinn er orðinn lítill og hversu líkur heimur krakka hvaðanæva er en þessi bók gæti hæglega gerst á Íslandi. Ég efa ekki að þær stelpur sem hafa lesið fyrri bækurnar verði glaðar með þessa nýjustu bók og eigi eftir að lifa sig af öllu hjarta inn í það þegar ástardraumar Elliear rætast.

Hildur Loftsdóttir

Höf.: Hildur Loftsdóttir