GYLFI Gautur Pétursson, forstjóri Löggildingarstofunnar, segir það beinlínis rangt að tala um óreiðu í bókhaldi stofnunarinnar.

GYLFI Gautur Pétursson, forstjóri Löggildingarstofunnar, segir það beinlínis rangt að tala um óreiðu í bókhaldi stofnunarinnar. Þá bendir Gylfi jafnframt á að fram komi í skýrslunni að stofnunin hafi gripið til víðtækra aðgerða til að bæta úr því sem athugasemdir hafi verið gerðar við.

Aðspurður segir Gylfi að hann hafi haft afnot af bifreið stofnunarinnar frá 1997 og síðan hafi sú bifreið einfaldlega verið endurnýjuð þegar hún var orðin þriggja ára gömul. Um þetta hafi stjórninni verið kunnugt en þegar athugasemd hafi samt sem áður verið gerð vegna þessa hafi bifreiðin einfaldlega verið seld og málinu lokið, löngu áður en nokkur athugun hófst hjá Ríkisendurskoðun.

"Ég hef greitt hlunnindaskatt af afnotum mínum af bifreiðinni frá upphafi. Um þetta allt var samkomulag við þáverandi ráðuneytisstjóra," segir Gylfi.

Aðspurður um tölvukaup stofnunarinnar segir Gylfi að þau hafi verið í verkahring skrifstofustjóra en hann hafi auk þess þegið ráðgjöf sérfræðings sem fenginn var til að fara yfir málin. "Það er ekki rétt að kaupin hafi verið utan rammasamnings sem var við Einar J. Skúlason. Hins vegar var bent á að of mikið hafi verið keypt og það er annað mál og ég hefði ef til vill átt að taka eftir því."

Spurður um ferðakostnað Löggildingarstofunnar segir Gylfi að alltaf sé hægt að gagnrýna stofnanir fyrir slíkt.

Gylfi Gautur bendir á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar komi orðrétt fram að "alvarleg veikindi fyrrverandi skrifstofustjóra höfðu umtalsverð áhrif á rekstur stofnunarinnar". Gylfi segir að það sé alltaf erfitt að fjalla um veikindi af þessu tagi og hann vilji ekki gera það opinberlega, en þau hafi nú verið dregin fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Gylfi segist munu skila andmælum og þar muni sjónarmið hans verða skýrð nánar. "Mál þetta kann að snúast um hugsanlega ábyrgð mína á starfsmönnum mínum. Ég mun að sjálfsögðu axla þá ábyrgð sem mér ber."