RÍKISENDURSKOÐUN hefur gert alvarlegar athugasemdir við fjölmörg atriði í fjármála- og eignaumsýslu Löggildingarstofu undanfarin ár. Meðal annars eru gerðar athugasemdir við bifreiðakaup stofnunarinnar, sem voru án heimildar, kaup á ýmsum búnaði sem ekki finnst í stofnuninni og greiðslur verktakalauna til ættingja yfirmanna. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur sent forstjóra Löggildingarstofu bréf þar sem fram kemur að í athugun sé að veita honum tímabundna lausn frá embætti vegna "stórfelldrar óreiðu á bókhaldi og fjárreiðum stofnunarinnar", eins og þar segir.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar er gerð í framhaldi af endurskoðun ársreiknings Löggildingarstofu fyrir árið 2001, þar sem talin var þörf á að endurskoða ákveðna þætti í starfsemi stofnunarinnar. Í skýrslunni er þess getið að veikindi fyrrverandi skrifstofustjóra hafi haft umtalsverð áhrif á rekstur stofnunarinnar fram á sl. ár. Hins vegar sé rétt að taka fram að nýr skrifstofustjóri hóf störf á árinu 2002 og stofnunin hafi gripið til víðtækra aðgerða til að bæta úr ýmsu sem athugasemdir séu gerðar við í skýrslunni.
57 farsímar - 20 starfsmenn
Fram kemur að Löggildingarstofa keypti 57 farsíma á tímabilinu 1999 til ágúst 2002 samkvæmt könnun á bókhaldsgögnum en starfsmenn stofnunarinnar voru þá um 20. Af 57 símum fundust 18 símar ekki þrátt fyrir sérstaka eftirgrennslan. Verðmæti þeirra er áætlað um 700 þúsund krónur.Þá kom í ljós að töluvert vantaði af tölvubúnaði stofnunarinnar. Við nánari eftirgrennslan var upplýst að ýmis búnaður var í vörslu fyrrverandi starfsmanna og fleiri aðila. Ekki var hægt að gera grein fyrir tölvubúnaði að kaupverði nálægt tveimur milljónum króna.
Dýrasti einstaki tölvuhluturinn sem ekki fannst í eignatalningunni var segulbandsafritunarstöð sem keypt var árið 2000 fyrir rúma hálfa milljón króna. Í ljós kom að hún var enn í vörslu fyrirtækisins sem seldi hana stofnuninni og var ónotuð. Sams konar afritunarstöð fannst í talningunni og segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar að kaup á tveimur slíkum stöðvum séu óskiljanleg í ljósi þess að afkastageta hvorrar um sig sé langt umfram þarfir stofnunarinnar.
Áætluð heildarkaup Löggildingarstofu á tölvubúnaði á umræddu tímabili er 17 milljónir króna sem Ríkisendurskoðun telur óeðlilega hátt í ljósi eðlis og umfangs starfseminnar. Telur Ríkisendurskoðun að stofnunin hafi átt að nýta sér rammasamninga sem Ríkiskaup hafa gert við nokkur önnur tölvufyrirtæki um afslátt af tölvubúnaði. Fjarskiptakostnaður stofnunarinnar þykir sömuleiðs óvenjuhár miðað við stærð hennar.
Í skýrslunni er á það bent að dóttir fyrrverandi skrifstofustjóra fékk á árunum 1999-2002 greitt fyrir aðstoð við skrifstofustörf og voru greiðslurnar í formi verktakagreiðslna. Voru störf hennar að mestu unnin á heimili fyrrverandi skrifstofustjóra. Til viðbótar munu önnur skyldmenni skrifstofustjórans fyrrverandi hafa fengið greiðslur fyrir ýmis störf gegn framlögðum reikningum.
Í skýrslunni er bent á að grunnlaun nokkurra starfsmanna stofnunarinnar séu mun hærri en samningar sem gerðir hafa verið við viðkomandi stéttarfélög og dæmi um að starfsmaður hafi fengið helmingi hærri grunnlaun en samkvæmt samningi.
Athugasemdir eru gerðar við bifreiðakaup Löggildingarstofu. Árið 2001 keypti stofnunin Toyota Landcruiser jeppa fyrir um 4 millj. kr. til afnota að mestu fyrir forstjóra stofnunarinnar og kom hún í stað annarrar bifreiðar. Engin heimild var hinsvegar í fjárlögum fyrir kaupunum.
Telur forstjóra ótvírætt ábyrgan
Talsvert er um rangfærslur í bókhaldi stofnunarinnar að því er fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar og skortur er á bókhaldsgögnum.Kostnaður vegna ferðalaga starfsmanna Löggildingarstofu nam í fyrra 12 m. kr. Telur Ríkisendurskoðun það há útgjöld þegar 20 starfsmenn eigi í hlut.
Í bréfi iðnaðar- og viðskiptaráðherra til forstjóra Löggildingarstofu segir að óreiða í eignarkaupum stofnunarinnar felist einkum í að ráðist hafi verið í kaup án þess að fyrir lægi þörf, tilefni eða eðlileg tengsl við starfsemi stofnunarinnar, mjög hafi skort á aðhald með umfangi kaupa. Telur ráðuneytið að kaup á dýrri jeppabifreið til afnota fyrir forstjóra feli í sér "óforsvaranlega meðferð fjármuna" miðað við hvernig fjárhag stofnunarinnar var háttað á þeim tíma og hún brjóti gegn "vönduðum stjórnsýsluháttum í umgengni með opinbert fé". Ráðuneytið telur ámælisvert að viðgengist hafi í stórum stíl að fela venslamönnum starfsmanna að taka að sér verkefni í verktöku án þess að þau hafi verið boðin út eða önnur hlutlæg aðferð viðhöfð við val verktaka. Slík verktaka sé til þess fallin að rýra traust til stofnunarinnar út á við. Telur ráðuneytið forstjórann ótvírætt ábyrgan fyrir þeirri óreiðu sem einkennt hafi kaup á verktakaþjónustu.
Í bréfinu er á það bent að Löggildingarstofa hafi um árabil verið rekin með stórfelldum halla og nú sé svo komið að það fé sem stofnuninni var lagt til í upphafi sé uppurið. Segir þar að vanræksla forstjórans felist bæði í því að stuðla að óreiðu með því að sinna ekki stjórnunarskyldum og með því að samþykkja bersýnilega óþörf útgjöld. Er það, að mati ráðuneytisins, sérstaklega alvarlegt þar sem forstjóra hafi verið ljóst að fjárhagsstaða Löggildingarstofu væri ófullnægjandi og fyllsta aðhalds því þörf í fjárreiðum. Fram kemur að samanlagður rekstrarhalli Löggildingarstofu vegna áranna 2000 og 2001 nam rúmlega 60 milljónum króna.
Ráðherra telur í bréfi sínu tilefni til að veita forstjóranum lausn frá embætti um stundarsakir. Er honum veittur frestur til föstudags til að koma að andmælum.