Eygló Ástvaldsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 22. ágúst 1958. Foreldrar hennar voru Ástvaldur Eiríksson, f. 25. júlí 1928, til heimilis á Hrafnistu í Reykjavík, og Guðbjörg María Helgadóttir, f. 6. desember 1923, d. 7. júlí 1996. Systkini Eyglóar eru Ragna María Pálmadóttir, f. 27.3. 1941, gift Sigþóri Magnússyni. f. 3.9. 1939; Amelía Kolbrún Úlfarsdóttir, f. 6.9. 1945; Guðríður Magnea Jónsdóttir, f. 1.7. 1948, maki Hallgrímur Lárus Markússon, f. 15.5. 1946; Halldóra Ástvaldsdóttir, f. 7.1. 1955, d. 15.8. 1977; Ásdís Hrönn Ástvaldsdóttir, f. 23.12. 1955; Magnús Ástvaldsson, f. 15.4. 1957; og Svanhvít Ástvaldsdóttir, f. 29.9. 1959, maki Hjálmar Haraldsson, f. 29.1. 1956.

Hinn 29. ágúst 1981 giftist Eygló eftirlifandi eiginmanni, Jóhanni Vilbergssyni, f. 1.1. 1960. Þau eiga fjögur börn. Þau eru Halldór Davíð Jóhannsson, f. 2.12. 1977; Ásthildur María Jóhannsdóttir, f. 19.5. 1984; Jóhann Eyþór Jóhannsson; f. 21.11. 1988; og Vilberg Sævar Jóhannsson, f. 3.4. 1991.

Árið 1963 fluttist Eygló til lands frá Eyjum. Hún bjó fyrst í Reykjavík en síðan á Stokkseyri en fluttist aftur til Reykjavíkur. Hún vann ýmis störf er hún stofnaði heimili 1978 eftir fæðingu fyrsta barns síns. Tók hún síðar við hreingerningafyrirtækinu Borgarþrif af föður sínum, ásamt manni sínum, og vann við hreingerningar og húsmæðrastörf meðan heilsa leyfði.

Útför Eyglóar verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Við erum slegin og hrygg, ung kona hrifin frá ástvinum sínum. Við skiljum ekki hvernig lungnabólga getur fellt unga og hressa konu, nú á tímum mikilla sigra á sviði læknavísinda. Okkar er ekki að skilja, heldur hlýða.

Kynni okkar af Eygló bar að þannig að eitthvað heyrðist um að ,,eldri kona" hefði nælt í Jóa litla. Við hugðum að og þessi ,,eldri kona" var þá bara 18 ára gullfalleg og hress stúlka, sem Jói hafði verið svo heppinn að kynnast, þá viðkvæmur 16 ára strákur. Þau gengu saman inn í hina óræðu framtíð og þar sannast sem sagt er best í sambúð hjóna, að ef þau beri hvert annars byrðar, þá fari allt vel. Eygló átti sérstaklega næma kímnigáfu, sem féll að léttri lund Jóa eins og hanski og oft var svo, að illt var að átta sig á hver átti upptökin að galsanum og hárfínum athugasemdum, svo lík voru þau á því sviði.

Eygló átti sér einnig þá alvarlegri hlið, sem kom fram í fórnfýsi og hjálpsemi við náungann, heimili hennar var nær ætíð einnig heimili foreldra hennar. Nærgætni og ljúfmennska hennar birtist í því að allt þetta gerði hún hljóðlega og taldi ekkert eftir sér í þeim efnum og kannaðist ekki við að hún væri að vinna góðverk. Slíkt er til eftirbreytni.

Þau Jói hófu að reka þjónustufyrirtæki og þau verk voru öll unnin með natni og vandvirkni svo eftir var tekið. Þar kom enn fram samstilling þeirra hjóna, þeirra dagar voru dagar samvista í starfi og leik. Að vísu voru fríin stutt og stopul, því samviskusemi þeirra batt þau fast við starfann.

Við sem nú söknum hennar svo mjög, þökkum henni húmorinn og léttleikann, vináttuna og virðingu hennar fyrir Jóa okkar.

Hvað er hægt að segja við börn hennar, sem nú horfa á atburðina í kring um sig, án þess að skilja hvers vegna móðir þeirra sé frá þeim tekin? Við reynum að segja þeim, að vegna ástar söknum við og finnum sárt til, nístandi kvöl er gjaldið fyrir ástina, sem menn áttu. Tilfinningin breytist með tímanum og sársaukinn minnkar, en söknuðurinn yfirgefur okkur ekki, við bara lærum að búa við hann.

Öllum ástvinum, systkinum, föður og þá sérstaklega börnunum hennar sendum við hugsanir okkar með ósk um að Guð styrki þau öll á komandi erfiðleikatímum. Honum Jóa okkar sendum við sömu kveðjur og bjóðum fram faðminn ef hann vill það þiggja.

Íris Vilbergsdóttir,

Sólrún Vilbergsdóttir,

Garðar Vilbergsson,

Bjarni Kjartansson,

Kristján Snædal.

Elsku Eygló, við viljum þakka fyrir þær stundir sem við áttum

með þér. Við kveðjum þig með söknuði.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt sem miður fer

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér

ég betur kunni þjóna þér.

Því veit mér feta veginn þinn

að verði þú æ drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson.)

Elsku Jói og börn og aðrir ástvinir, við biðjum góðan guð að styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Kolbrún og Svavar, Hauganesi.